„Svaf yfir mig og var of seinn í lestina“

Slasaðir eru fluttir af vettvangi við Kings Cross brautarstöðina í …
Slasaðir eru fluttir af vettvangi við Kings Cross brautarstöðina í London. Reuters

„Ég svaf yfir mig, og var aðeins of seinn, og var að labba í Kings Cross lestarstöðina sem er rétt hjá mér, þegar ég mætti fólki við stöðina sem var sótsvart í framan,“ segir Ísleifur Birgisson, nemi í hljóðupptökufræðum við SAE-háskólann í London. „Það var engin ofsahræðsla í gangi, sem kom mér mjög á óvart. Fólk labbaði bara rólega í burtu, virtist vera hálfdofið.“

„Maður vissi ekkert strax að það hefði orðið sprenging, ég hélt í langan tíma bara að það hefði orðið lestarslys,“ segir Ísleifur sem ætlaði að taka strætó en þá var búið að stöðva strætisvagnakerfið í borginni, svo hann gekk í skólann sem er um 40 mínútur frá heimili hans. Þar tóku öryggisverðir á móti fólki og því var sagt að sprenging hefði orðið.

Hann segir að það fyrsta sem hann hafi gert hafi verið að reyna að láta vita af sér heim, en það var ekki hægt þar sem farsímakerfið lá niðri. Hann hafi náð að senda skilaboð í sendiráðið og vinur hans hafi náð heim.

„Það eru þúsundir manna úti á götu að labba, fólk þarf einhvern veginn að komast á milli og það er ekki möguleiki að fá leigubíl. Hins vegar höldum við okkur bara hérna enda hefur fólk verið beðið um að fara ekki út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert