Hugsaði um það eitt að drífa mig út

Ágúst Jakobsson.
Ágúst Jakobsson.

„Ég fór seinna að heiman frá mér en ég geri venjulega. Yfirleitt er ég að fara af stað um klukkan sex en í [gærmorgun], þar sem ég var á leiðinni niður í Soho, var ég kominn á lestarstöðina sem ég bý við hliðina á rétt fyrir níu. Ég keypti blaðið til að lesa fréttir um fótbolta, fór niður á lestarpallinn og hlustaði á tónlist í iPodnum, eins og ég geri svo oft, meðan ég beið eftir lestinni þegar það kemur hvellur. Ég finn hann og fæ högg fyrir brjóstið. Síðan kemur mikill reykur og sót út úr lestargöngunum og loks fer rafmagnið og ljósin slokkna. Þá greip mig smá skelfing."

Þannig lýsir Ágúst Jakobsson, sem starfar sem myndatökumaður í London, því þegar hann fór frá heimili sínu og á lestarstöðina Russel Square í gærmorgun á þeim tíma sem sprengingarnar urðu í London. Svo vildi til að hann var ekki í myndatökum í gærdag og því tók hann lestina seinna en venjulega.

Stöðin er rétt við King's Cross-stöðina en á milli þessara tveggja lestarstöðva sprakk sprengja í gærmorgun sem kostaði 21 mann lífið.

Öskur og læti á brautarpallinum

Ágúst segir mikla skelfingu hafa gripið um sig á lestarpallinum. Fólk hafi farið að troðast út. Lyfta sem fólk kemst með til og frá lestarpallinum varð óvirk vegna rafmagnsleysisins og mikill troðningur varð við stiga þegar fólk reyndi að komast út.

"Pallurinn var fullur af fólki því það var háannatími," segir Ágúst. "Það heyrðust öskur og læti en það var niðamyrkur, alveg svart."

Ágúst er með vasaljós á símanum sínum og kveikti strax á því til að reyna að sjá það sem fyrir augu bar. "Ég sá nú samt ekkert nema reyk. Ég mundi leiðina upp að lyftunni en þar er hringstigi sem fer upp. Við vorum bara svo mörg að það varð mikill troðningur og læti enda allir í geðshræringu. Ég datt í gólfið og skreið á fjórum fótum í smá stund. Svo skreið ég meðfram veggjum. Svo komst ég upp í afgreiðsluna og út á götu."

Hann segist hafa áttað sig á því þegar hann kom út að hann var sótsvartur frá toppi til táar. Hann segist ekki muna hvort erfitt hafi verið að anda vegna reyksins. "Ég hugsaði um það eitt að drífa mig út."

Ágúst telur að það hafi tekið sig um tíu mínútur að komast út eftir að sprengingin heyrðist. Lögregla og sjúkraliðar voru fljót á vettvang og fyrstu upplýsingar voru þær að rafmagnsbilun hefði orðið í lestarkerfinu. Öllum var beint inn í garð rétt hjá stöðinni og þar hlúðu sjúkraliðar að fólkinu.

Stuttu síðar fór að koma upp frá lestarstöðinni alblóðugt fólk og illa á sig komið og þá var ljóst að ástandið var mun alvarlegra en talið var í fyrstu.

Ágúst gekk heim eftir að hafa fengið aðhlynningu hjá sjúkraliðunum. Þar kveikti hann á sjónvarpinu og smám saman segist hann hafa gert sér grein fyrir ástandinu. "Ég hringdi í dóttur mína og þegar ég fór að tala um þetta við hana áttaði ég mig smám saman á því hvað hafði gerst."

Erfitt var að ná sambandi við fólk í London í gær þar sem farsímakerfið hrundi. Fram eftir degi var því mikið óvissuástand að sögn Ágústs. Misvísandi fréttir af gangi mála hafi einnig haft sitt að segja og ýmsar kenningar voru á lofti um ástæður sprenginganna. Orðrómur hafi heyrst um að sprengingarnar gætu orðið fleiri. "Fyrri hluta dagsins var ég svolítið ringlaður en ég er svona allt í lagi núna," segir Ágúst spurður um líðan sína í gærkvöldi.

Allir áttu von á hryðjuverkum

Ágúst, sem hefur verið búsettur í London í þrjú ár, segir að allir hafi í raun átt von á því að London yrði fyrir barðinu á hryðjuverkum. "Maður hefur því alltaf haft það bak við eyrað," segir Ágúst. "Ég hef hugsað um þetta áður, t.d. þegar ég hef verið að taka lestina í kringum jólin þegar mikill fjöldi er í lestunum, að nú fari eitthvað að gerast. Svo gleymir maður þessu. En svo gerist þetta þegar maður er ekki að hugsa um það."

Í gær var atvinnulífið í London hálflamað og því kippti enginn sér upp við það þótt fólk mætti ekki til vinnu eða á fundi á tilsettum tíma. En í dag er nýr dagur og Ágúst þarf eins og aðrir að mæta til vinnu. "Það verður svolítið skrítið. Það verður mikið talað um þetta. Ég fer ekki með lest [í dag], ég ætla að taka leigubíl.

Ég held að það verði mjög skrítið að fara aftur á sömu lestarstöðina. Ég fer reglulega á þessa stöð, nokkrum sinnum í hverri viku. Ég held að það verði frekar skrítið að labba þarna niður aftur og bíða eftir lestinni. Ég hreinlega get ekki ímyndað mér það. Ég er bara heppinn að þetta gerðist ekki nokkrum mínútum seinna, þá hefði ég verið í lestinni."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert