Byggingu íþróttahúss á Suðureyri er nú að mestu lokið, en húsið verður þó ekki tekið í notkun fyrr en kennsla grunnskólabarna hefst í haust. Töluvert hefur gengið á í byggingu hússins og segir Björgmundur Guðmundsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Ágústs & Flosa, sem hefur verkið með höndum, að ekki hefði veitt af því að fá prest til að vígja staðinn þegar framkvæmdir hófust.
„Það var rætt um það á sínum tíma, en menn töldu það óþarfa. Eftir á að hyggja tel ég að ekki hefði veitt af. Fyrir það fyrsta hrundi úr hlíðinni ofan í steypumót í grunninum. Þá kom stálgrindin allt of seint og þegar gluggarnir í húsið komu voru fjölmargir þeirra brotnir. Svo slasaðist verkstjórinn í vor og handleggsbraut sig. Málarinn slasaði sig líka svo við þurftum að fá annan. Límtrésplöturnar í stigann hafa ekki verið til í landinu síðan í mars. Einn af löngu gluggum hússins var hálfum metra of stuttur. Eining í utanhúsklæðningu skemmdist í flutningum og síðan skemmdist önnur í foktjóni um daginn. Þetta er bara það sem ég man eftir í augnablikinu. Ég mun fara fram á það að húsið verði blessað af presti áður en það verður tekið í notkun“, segir Björgmundur.
Framkvæmdum er nú að mestu lokið og er beðið eftir því að rakastig golfplötu hússins komist niður fyrir viðunandi mörk svo hægt verði að leggja parket.
Í upphafi var stefnt að því að byggingu hússins yrði lokið í 16. viku ársins, en m.a. af ofangreindum ástæðum hafa verklok tafist.