Impregilo kærir mótmælendur fyrir eignaspjöll

Lögregla ræðir við mótmælendur á tjaldsvæðinu við Kárahnjúka í dag.
Lögregla ræðir við mótmælendur á tjaldsvæðinu við Kárahnjúka í dag. mbl.is/Árni Torfason

Impregilo hefur sent sýslumanni kæru á hendur mótmælendum við Kárahnjúkavirkjun fyrir eignaspjöll. Ómar Valdimarsson, talsmaður Impregilo á Íslandi, staðfesti þetta í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins nú fyrir stundu. Þá hefur einn yfirmanna fyrirtækisins lagt fram kæru um líkamsárás þar sem hann var sleginn þegar hann var að taka myndir af mótmælendum þar sem þeir voru með aðgerðir inni á stíflusvæðinu.

Þá segir hann að yfirmaður framkvæmda á stíflusvæðinu hafi lagt fram kæru um líkamsárás. Hann hafi verið að taka myndir af mótmælendum í fyrrakvöld þegar þeir voru með aðgerðir og þá hafi verið ráðist á hann og hann sleginn. Hann hafi ekki verið að skipta sér af mótmælendunum að neinu leyti.

Mótmælendurnir eru nú að fara af svæðinu og hafa þeir pakkað flestum tjöldum sínum saman. Lögregla mun sjá um að koma þeim af svæðinu, að sögn Sigurðar Arnalds, upplýsingafulltrúa Landsvirkunar.

Ómar segir að hjá Impregilo séu menn ánægðir með að sjá mótmælendurna fara. „Við erum ákaflega ánægðir með að verið sé að loka tjaldbúðunum. Við vonum að fólkið finni sér farsælari farveg til að tjá skoðanir sínar. Það er sjálfsagt að fólk láti andstöðu sína í ljós en ekki á kostnað einkafyrirtækja eða opinberra fyrirtækja.“

mbl.is