Skemmdarverk unnið á jarðstreng í Skriðdal

„Strengurinn var sagaður sundur, líklegast með járnsög," segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, en uppgötvast hefur að jarðstrengur, sem fyrirtækið vinnur að því að leggja frá Hryggstekk í Skriðdal og niður að Stuðlum í Reyðarfirði, hefur verið tekinn í sundur.

Tryggvi segir um milljónatjón fyrir RARIK að ræða. Tæpt hefur verið á þeirri staðreynd að skemmdarverkið hafi verið unnið nálægt tjaldbúðum mótmælenda vegna Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. "Við höfum ekkert með rafmagn fyrir bændur og búalið að gera," segir fulltrúi mótmælendanna hins vegar.

Tengimenn frá Þýskalandi og Tyrklandi eru nú að störfum við strenginn. "Það var búið að leggja strenginn niður og sanda yfir en ekki búið að ganga frá endanlega. Svo virðist sem sandurinn hafi verið mokaður ofan af, skorið á einn strenginn og annar skaddaður og mokað svo yfir aftur," segir Tryggvi. Hann segir strenginn ekki kominn alla leið en að hann sé reglulega prófaður á leiðinni meðan verið sé að setja hann saman. "Við mælingar kom í ljós að eitthvað var að. Þegar bilunin fannst kom þetta í ljós. Þetta getur hafa gerst frá síðasta laugardegi og þangað til í fyrradag. Við vitum svo sem ekki hver gerði þetta og viljum ekki hafa skoðun á því. En þetta er óþægilega nálægt mótmælendum á Vaði."

Lögregla kom á staðinn, tók myndir og skýrslur og vinnur að rannsókn málsins en RARIK hefur kært verknaðinn. "Þetta er eins og hvert annað skemmdarverk sem við viljum auðvitað sækja," segir forstjóri RARIK.

"Þetta er ekki okkar deild," segir Ólafur Páll Sigurðsson, einn mótmælenda sem nú hafast við á Vaði í Skriðdal. "Mér finnst þetta svolítið gruggugt," segir hann og bætir við að svo virðist sem reynt sé að klína verknaðinum á mótmælendurna. "Ég lýsi því yfir sem mótmælandi gegn stóriðjuvæðingu og virkjanabrjálæði á Íslandi að við höfum engan áhuga á að standa í skemmdarverkum á rafmagni til heimila í landinu." Þess utan benti Ólafur á að "þeir sem standa fyrir skemmdarverkum í landinu eru Landsvirkjun, Impregilo og Alcoa."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert