Ætlar að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í kosningunum í vor

Gísli Marteinn í Iðnó í dag.
Gísli Marteinn í Iðnó í dag. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

Gísli Marteinn Baldursson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sjónvarpsmaður, segir að hann hafi gefið kost á sér í efsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri, til þess að leiða flokkinn til sigurs í kosningunum í vor. Á fundi með stuðningsmönnum sínum í dag sagði hann að prófkjör snerist ekki fyrst og fremst um málefni. „Auðvitað eru mismunandi áherslur milli einstaklinga, jafnvel í samhentum hópi eins og í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. En komandi prófkjör snýst að mínu viti ekki fyrst og fremst um málefni,“ sagði Gísli.

„Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er samhentur hópur. Okkur greinir ekki á um nein grundvallaratriði. Við erum öll sjálfstæðismenn og sú stefna sem við höfum unnið eftir undanfarin fjögur ár er stefna okkar allra; sameiginleg stefna sem hvert og eitt okkar í borgarstjórnarflokknum hefur lagt sitt af mörkum við að móta undir góðri forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar,“ sagði Gísli.

„Í prófkjöri hljóta kjósendur þess vegna að gera upp hug sinn fyrst og fremst með hliðsjón af því hvaða einstaklingur sé líklegastur til að afla flokknum fylgis út fyrir raðir hörðustu sjálfstæðismanna. Það þarf að gera upp við sig hvaða einstaklingur sé líklegastur til að tryggja Sjálfstæðisflokknum sigur í komandi kosningum,“ sagði Gísli að lokum.

mbl.is