Vill að hafnar verði sameiningarviðræður sveitarfélaga á höfuðborgarsvæði

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, mun á fundi borgarstjórnar á morgun leggja fram tillögu um að Reykjavíkurborg verði falið að leita eftir viðræðum við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðisins um sameiningu. Um yrði að ræða sameiningu Reykjavíkur við sveitarfélögin Kópavog, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ, Garðabæ, Hafnarfjörð og Álftanes.

Í greinargerð með tillögunni segir Ólafur m.a., að augljósar landfræðilegar ástæður mæli með sameiningu Reykjavíkur, Seltjarnarness og Kópavogs og þar sem Kjalarnes hafi þegar sameinast höfuðborginni liggi beint við að Mosfellsbær geri það líka. Sameining Reykjavíkur og Mosfellsbæjar myndi tvímælalaust greiða fyrir löngu tímabærri lagningu Sundabrautar alveg frá Kleppsvík norður á Kjalarnes. Tilkoma Mosfellsbæjar með sitt mikla ónumda byggingarland í sameinað sveitarfélag myndi auk heldur minnka líkur á dýrum skipulagsmistökum.

Á sama hátt myndi sameining sveitarfélaganna Álftaness, Garðabæjar og Hafnarfjarðar við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu flýta fyrir bættum samgöngum um sunnanvert höfuðborgarsvæðið.

Þá segir Ólafur, að þótt sveitarfélögin myndu sameinast myndu þau að sjálfsögðu varðveita sögu sína og menningarleg sérkenni og íbúalýðræði innan hins sameinaða sveitarfélags tryggði t.d. Grafarvogsbúum, Breiðhyltingum og Kópavogsbúum lík skilyrði í lýðræðislegri ákvarðanatöku. Engu að síður fælist hagræði í því að sameina yfirstjórn höfuðborgarsvæðisins og draga úr yfirbyggingu stjórnsýslunnar.

mbl.is