Umferð hleypt á Fáskrúðsfjarðargöngin

Margir voru viðstaddir þegar Fáskrúðsfjarðargöngin voru opnuð formlega. Á myndinni …
Margir voru viðstaddir þegar Fáskrúðsfjarðargöngin voru opnuð formlega. Á myndinni sést Reyðarfjörður í baksýn. mbl.is/Helgi Garðarsson

Umferð var með formlegum hætti hleypt á Fáskrúðsfjarðargöngin í dag eftir að Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, klipptu á borða í göngunum og prestarnir Davíð Baldursson og Þórey Guðmundsdóttir blessuðu mannvirkið. Margir voru viðstaddir athöfnina, þar á meðal Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra.

Fáskrúðsfjarðargöng eru 5,7 km löng, með 200 metra löngum steyptum vegskálum og 8,5 km löngum veg milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar í Suður- Múlasýslu. Framkvæmdir hófust við göngin vorið 2003. Leiðin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar styttist um 31 km en var um 52 km. Stytting milli Mið-Austurlands og Suðurfjarða verður um 34 km.

Heildarkostnaður verksins er um 3,8 milljarðar króna og er aðalverktaki Ístak hf. og E. Phil & Søn AS.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, klipptu á borða …
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, klipptu á borða í göngunum. mbl.is/Helgi
mbl.is