Bessi Bjarnason látinn

Bessi Bjarnason, leikari.
Bessi Bjarnason, leikari. mbl.is

Bessi Bjarnason, leikari, lést á Landspítalanum í gær, sjötíu og fimm ára að aldri. Ferill Bessa spannaði nær hálfa öld og var hann í hópi ástsælustu leikara þjóðarinnar.

Bessi Bjarnason fæddist í Reykjavík 5. september 1930, sonur Guðrúnar Snorradóttur, húsmóður, og Bjarna Sigmundssonar, bifreiðastjóra.

Að loknu verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1949 var Bessi ráðinn á nemendasamning hjá Þjóðleikhúsinu í eitt ár. Hann sótti Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar samfara námi síðasta veturinn í Verzlunarskólanum. Síðan tók Bessi inntökupróf í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins strax og hann tók til starfa og útskrifaðist vorið 1952 en jafnframt náminu lék hann í mörgum leikritum Þjóðleikhússins. Hann var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið 1952 til 1990 og hélt áfram að leika í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Loftkastalanum eftir það.

Hlutverk hans í Þjóðleikhúsinu voru hátt í 200. Hann lék meðal annars í fjölda barnaleikrita, þar á meðal í Litla Kláusi og Stóra Kláusi, Kardemommubænum, Dýrunum í Hálsaskógi og Ferðinni til tunglsins.

Á meðal gamanleikrita sem hann lék í má nefna Skugga-Svein, Góða dátann Svejk, Hrólf, Hunangsilm, Nýársnóttina, Hvað varstu að gera í nótt, Á sama tíma að ári, Sveyk og Aurasálina.

Alvarlegu hlutverkin voru ófá en hann lék meðal annars í Horfðu reiður um öxl, Húsverðinum, Náttbólinu og Bílaverkstæði Badda.

Jafnframt lék hann gjarnan aðalhlutverk eða áberandi hlutverk í söngleikjum eins og My Fair Lady, Stöðvið heiminn, Lukkuriddarinn, Ég vil! Ég vil!, Kabarett og Gæjar og píur.

Hann tók einnig þátt í mörgum óperettum, þar á meðal Sumar í Týról og Kysstu mig Kata. Auk þess í óperum eins og Töfraflautunni og Mikado.

Auk hlutverka í leikhúsi lék Bessi í fjölda útvarpsleikrita og kom fram í mörgum skemmtiþáttum. Árum saman tróð hann upp með Gunnari Eyjólfssyni á skemmtunum um allt land og síðar tóku þeir ásamt fleirum þátt í Sumargleðinni um árabil. Bessi tók þátt í fjölda sjónvarpsmynda og lék í sjónvarpsauglýsingum. Þá lék hann í nokkrum kvikmyndum eins og til dæmis Skilaboðum til Söndru, Ryði, Ingaló og Stellu í orlofi.

Bessi Bjarnason var gjaldkeri Félags íslenskra leikara 1958 til 1985 og sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Hann var sæmdur gullmerki FÍL 1981.

Um árabil sá Bessi um bókhald hjá Landsmiðjunni og fékkst við margs konar sölumennsku. Hann kom að plötuútgáfu og stóð meðal annars fyrir útgáfu á barnaleikritum og lesnum barnasögum.

Fyrri kona Bessa var Erla Sigþórsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn og eru barnabörnin fimm. Seinni kona Bessa er Margrét Guðmundsdóttir leikkona.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert