Guttormur allur

Nautið Guttormur, sem um tíma var eitt af þyngstu nautum …
Nautið Guttormur, sem um tíma var eitt af þyngstu nautum landsins, er allur.

Nautið Guttormur var fellt í morgun. Guttormur, sem vakið hefur mikla athygli í Fjölskyldu og húsdýragarðinum í Laugardal, var 12 vetra og hefði orðið 13 vetra 12. október næstkomandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsdýragarðinum hefur Guttormur, sem um tíma var þyngsta naut landsins, þjáðst af gigt og átti erfitt með gang og því var ákveðið að fella hann. Guttormur verður grafinn í gæludýragrafreit í Kjós síðar í dag.

Guttormur var með þyngstu nautum á landinu. Þyngstur mældist hann 942 kíló árið 2001. Þegar hann var vigtaður fyrir tæpri viku síðan hafði hann lést nokkuð.

Í bígerð er að reisa Guttormi minnisvarða enda segja starfsmenn Húsdýragarðsins, að þeir efist um að jafn geðgott naut komi í hans stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert