Verktaki við Kárahnjúka segir upp samningi við Slippstöðina

Þýska fyrirtækið DSD Stahlbau GmbH hefur formlega sagt upp samningi við Slippstöðina á Akureyri vegna vinnu við Kárahnjúkavirkjun. Slippstöðin, sem var undirverktaki DSD, fékk á dögunum heimild til greiðslustöðvunar.

Á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar segir, að verkefnið varði stálfóðringu tvennra lóðréttra aðrennslisganga í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal og áfram að túrbínum Kárahnjúkavirkjunar. Þýska fyrirtækið stefni nú að því að taka sjálft við verkinu og ætla megi að það taki jafnframt við samningum við pólsku starfsmennina sem að því unnu.

Landsvirkjun segir að fyrirsjáanlegt sé að verkið tefjist nokkuð vegna rekstrarerfiðleika Slippstöðvarinnar en innan tíðar verði farið yfir það hvernig vinna megi þær tafir upp.

Kárahnjúkavefur Landsvirkjunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert