"Höll tónlistarinnar verði hús fólksins"

„Það er einróma álit okkar að vinningstillagan sé glæsileg í …
„Það er einróma álit okkar að vinningstillagan sé glæsileg í alla staði og að byggingin verði áhrifamikið kennileiti í ásýnd Reykjavíkur," segir í umsögn matsnefndar um tillögu Portus-hópsins.

„Mér líst mjög vel á þetta," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra í lok blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu í gær, þar sem tilkynnt var að tillaga Portus-hópsins um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss og hótels við Reykjavíkurhöfn hefði verið valin.

Portus-hópurinn er í eigu Landsafls hf., Nýsis hf. og Íslenskra aðalverktaka hf. Arkitektar Portus-hópsins eru teiknistofa Hennings Larsens í Danmörku og Batteríið ehf. Hönnunarstjórn er í höndum Batterísins, dönsku arkitektanna og verkfræðistofunnar Rambøll Danmark. Verkfræðistofurnar Hnit og Hönnun eru tæknilegir ráðgjafar og Íslenskir aðalverktakar eru stýriverktaki. Útlit hússins er að miklu leyti verk listamannsins kunna Ólafs Elíassonar og Vladimir Ashkenazy er sérlegur listrænn ráðgjafi varðandi tónlistardagskrá hússins fyrstu árin, en með tillögu Portus voru lagðar fram hugmyndir að metnaðarfullri tónlistardagskrá hússins. Einkenni bygginganna verður glerhjúpur sem liggur eins og dregill yfir tónlistar- og ráðstefnuhúsið, og er hannaður af Ólafi Elíassyni. Hann mun gefa húsinu ljós og lit, sem tekur breytingum eftir tíma dags jafnt sem árstíðum. Portus-hópurinn reiknar með að stofnkostnaður við tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina verði rúmlega 12 milljarðar króna.

Þorgerður Katrín kvaðst afskaplega stolt að fá að upplifa þennan dag, og þann merka áfanga sem náðst hefur í byggingu hússins. „Við erum að móta og skapa þá glæsilegu umgjörð sem tónlistin í landinu á svo sannarlega skilið. Við eigum glæsilega tónlistarmenn, bæði á sviði sígildrar tónlistar og popptónlistar. Ég vona bara að við uppbyggingu hússins verði það haft hugfast að þessi höll tónlistarinnar verði hús fólksins," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri sagði að mikil alúð hefði verið lögð í undirbúning verkefnisins, og þakkaði öllum sem hlut áttu að máli. „Þetta er stór og söguleg stund. Í höfuðborginni mun rísa miðstöð menningar og ferðaþjónustu sem jafnframt verður glæsilegt kennileiti til framtíðar," sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

„Mér finnst stórkostlegt að sjá hvernig þetta hefur verið útfært," sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og fyrrum menntamálaráðherra. Björn átti stóran þátt í ákvarðanatöku um byggingu tónlistarhússins. „Mér finnst þetta hafa gengið eftir með glæsibrag, og vera jafnvel glæsilegra en ég átti von á. Þessi bygging á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir menningarlífið, en ekki síður fyrir Reykjavíkurborg, og landið allt. Þetta mun lyfta landinu öllu upp á nýtt listrænt stig og tónlistarhúsið mun verða eitt af byggingarundrum veraldar þegar upp verður staðið," sagði Björn Bjarnason.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert