Vladimir Ashkenazy er listrænn ráðgjafi: Miklir möguleikar í nýju húsi

Stóri tónleikasalurinn séð ofan af sviði.
Stóri tónleikasalurinn séð ofan af sviði.

„Eitt algengasta vandamálið við stofnun nýrra tónlistarhúsa er að allt fjármagnið fari í að reisa bygginguna sjálfa, og lítið sem ekkert hugað að dagskránni sjálfri - því sem á að gerast í húsinu. Þau mistök höfum við oft séð gerð," segja þeir Vladimir Ashkenazy og Jasper Parrott, umboðsmaður hjá HarrisonParrott-umboðsskrifstofunni í London, í samtali við Morgunblaðið.

Til stendur að þeir setji saman veglega dagskrá í Tónlistarhúsinu í Reykjavík sem spanna mun nokkur ár eftir að húsið verður opnað og er Ashkenazy titlaður listrænn ráðgjafi þess, en hann er, sem kunnugt er, einn elsti og ötulasti talsmaður byggingar tónlistarhúss á Íslandi og því afar metnaðarfullur fyrir hönd verkefnisins.

„Það vill oft gerast að þegar húsið er loksins tilbúið er oft búið að þurrausa alla sjóði, og þá þarf í hendingu að hefjast handa við að útvega fjármagn til að reka það. Byggingin sjálf er oft á tíðum mjög vel heppnuð, en fjármagnið sem á að fara í innihald hennar er ekki til. Spenningurinn sem verður til hjá almenningi yfir nýju og glæsilegu húsi og umhverfi er fljótur að koðna niður ef ekki eru spennandi hlutir að gerast í húsinu. Fyrir vikið dettur staðallinn niður, sem leiðir af sér minni trú á húsið. Að lokum er húsið ekki lengur í stakk búið til að fylgja þeim háleitu markmiðum sem lagt var upp með," segir Parrott. „Portus-hópurinn hefur lagt á það ríka áherslu að fjármagn sé tryggt í minnst þrjú ár eftir að húsið er opnað til að gera mögulega þá fjölbreyttu starfsemi sem húsið getur hýst. Að grunnur sé lagður að föstum áhorfendahópi og fjölbreyttum viðburðum á viðráðanlegu verði, þannig að í lokin sé það að fara í húsið og upplifun þar orðin hluti af menningu fólksins. Þá getur orðið til mjög eðlileg þróun í virkni hússins, sem þá getur leikið stórt hlutverk í samfélaginu öllu."

Dagskrá í þrjú ár

Parrott segir þá Ashkenazy þekkja mörg dæmi um hvort tveggja, annars vegar þar sem ekki hafi verið veitt nægt fé til rekstrar hússins að lokinni byggingu þess og þá hafi húsum jafnvel verið lokað, en hins vegar þar sem rétt hafi verið staðið að málum. Þar hafi húsin orðið að ótrúlega öflugum kröftum innan samfélagsins og þannig segjast þeir vonast til að verði með þetta hús. „Ég tel að við getum boðið upp á mjög metnaðarfulla og vel heppnaða dagskrá í að minnsta kosti þrjú ár," bætir Ashkenazy við. „Og ef við tökum vandaðar ákvarðanir, þar sem ekki er öllu hrúgað á fyrsta árið heldur byggt upp yfir þrjú ár, tel ég að við getum vakið svo mikinn áhuga á þessu húsi meðal styrktaraðila að framhaldið komi af sjálfu sér."

Portus-hópurinn hefur skuldbundið sig til að verja 1,2 milljörðum króna í svonefndan bakhjarlsstuðning til að setja upp dagskrá í Tónlistarhúsinu næstu árin eftir að það verður opnað, til viðbótar við önnur framlög. "Það verður að sjálfsögðu ekki greitt út í einni greiðslu, heldur yfir nokkurra ára tímabil, kannski 100-150 milljónir í einu. En jafnvel í hinum dýra heimi alþjóðlega þekktra listamanna eru það miklir peningar, sem geta keypt hingað mikið hæfileikafólk," segir Kjartan Gunnarsson, varaformaður stjórnar Landsbankans, og Ashkenazy og Parrott samsinna þeirri staðhæfingu.

Parrott bætir við að tímasetningin á byggingu Tónlistarhússins sé hárrétt, því um þessar mundir sé mikið rætt á alþjóðlegum vettvangi hið stóra hlutfall listamanna sem Ísland hafi getið af sér, ekki síst á tónlistarsviðinu. „Sé innlendu hæfileikafólki stillt upp við hlið erlendra stórstjarna tel ég að mikill áhugi geti vaknað og staðallinn jafnvel hækkað enn hér á landi. Sé vel staðið að viðskiptum listanna; sem snúast til dæmis um kynningu og markaðssetningu á viðburðum, menntun yngra fólks og því að byggja upp dyggan neytendahóp, er framtíðin sjálfbær," segir Parrott og Kjartan skýtur því að að 50 milljónir verði ennfremur lagðar í sérstakan tónmenntasjóð ætlaðan börnum.

Ashkenazy segir ótímabært að tala um ákveðna viðburði sem gætu átt sér stað í húsinu, en skálduð dagskrá hússins fyrir tónleikaárið 2009-2010 sem fylgdi tillögu Portus-hópsins er einkar glæsileg. Yrði hún að veruleika myndi tónlistarfólk á borð við Sigur Rós, Lundúnafílharmóníuna, Andrea Bocelli ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og Skólakór Kársness stíga á sviðið í Tónlistarhúsinu árið 2009. Upp úr áramótum kæmu þar svo fram Cecilia Bartoli og Stuðmenn. Þótt enginn viðburðanna í hinni skálduðu dagskrá sé í raun og veru fyrirhugaður gefa þeir nokkra mynd af því hvernig þeir Ashkenazy og Parrott sjá dagskrána fyrir sér. „Ég tel að ég og Parrott, sem hefur áralanga reynslu af skipulagningu viðburða, ættum að geta sett upp heildstæða dagskrá, sem væri líka fjölbreytt, allt frá einsöngstónleikum til sinfóníuhljómsveita. Tónleikaárið ætti að geta verið mjög skemmtilegt og fjölbreytt," segir hann. „Ég vil ekki hljóma drambsamur, en ég tel að það sé erfitt að finna tvíeyki sem hefur jafnmikla þekkingu á því sem er að gerast í tónlistarheiminum í dag og okkur tvo. Og líka góð sambönd, því það skiptir ekki síður máli í listheiminum. Listamenn geta verið mjög opnir fyrir nýjum hlut á borð við tónlistarhús af þessu tagi í Reykjavík séu réttu mennirnir talsmenn þess."

Ashkenazy nefnir að hann hafi getað fengið marga fræga tónlistarmenn til að leika á Listahátíð í Reykjavík á árum áður, en hann var einn af frumkvöðlunum að baki stofnunar hennar, sem margir hverjir hafi leikið endurgjaldslaust fyrir hans orð. Nú geti hann haldið áfram að bjóða fólki að koma, og það sé ennfremur hægt að greiða því laun. „En það mun taka þessi boð alvarlega ef rétti maðurinn býður því," segir hann.

Ashkenazy og Parrott taka það fram að ekki standi til að leggja eingöngu áherslu á "heldri" tónlistarflutning í húsinu, heldur bjóða þar velkomna alls konar tónlist. „Ég tel að tónlistin sem ég einbeiti mér að, sem ég kýs að kalla alvarlega en ekki klassíska, sé ein upphafnasta tjáning mannshugans. En ég vil ekki líta niður á það besta sem gerist í léttari tónlist, jafnvel í poppi eða djassi. Ef við erum vandlátir í vali og vinnum með fólki sem hefur mikla þekkingu á þeim geira tel ég að það geti verið þess virði. Ég tel að það sé mikilvægt að öll stig íslenskrar menningar fái eitthvað fyrir sinn snúð. Þannig er hægt að koma landinu virkilega á kortið í tónlistarlífinu. Þeir sem að þeim málum vinna standa sig vel eins og er, en hús á borð við þetta kallar á ennþá meiri athygli," segir Ashkenazy.

Gerir landið enn meira aðlaðandi

Hann segir erfitt að bjóða stórstjörnum úr tónlistarheiminum upp á þær aðstæður sem eru í boði hérlendis um þessar mundir. Hið nýja tónlistarhús muni breyta því. „Margir tónlistarmenn, sérstaklega í hljómsveitum, líta á salinn sem þeir leika í sem sinn Stradivarius. Að húsið sé gott skiptir miklu máli," segir Parrott.

Þeir segjast telja að Tónlistarhúsið og íslenskt samfélag muni mynda góða og aðlaðandi heild; margir listamenn muni kjósa að koma fram í húsinu ekki einungis vegna hússins sjálfs eða þeirra sem að því standa, heldur einnig vegna sérstöðu Íslands og hins íslenska samfélags í heiminum. Hins vegar geti Tónlistarhúsið laðað að ferðamenn og Íslendinga samtímis, og heimsókn þangað þannig orðið ómissandi hluti af dvöl á Íslandi. „Þetta hús mun gera það að verkum að Reykjavík ber höfuð og herðar yfir margar stórborgir í Evrópu í þessum skilningi, þótt ég nefni engin nöfn," segir Ashkenazy og segir að hönnun hússins virðist mjög vönduð og heppileg í alla staði. „Með tilkomu þessa húss munum við geta gert marga hluti sem við gátum ekki gert hér á landi áður fyrr vegna aðstöðuleysis. Með tilkomu hins nýja húss eru möguleikar framtíðarinnar mjög miklir."

Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is

„Við getum boðið upp á mjög metnaðarfulla og vel heppnaða …
„Við getum boðið upp á mjög metnaðarfulla og vel heppnaða dagskrá í að minnsta kosti þrjú ár," segja Vladimir Ashkenazy og Jasper Parrott. mbl.is/Kristinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert