Jón Ólafsson vann meiðyrðamál gegn Hannesi H. Gissurarsyni í Englandi

Enskur dómstóll hefur dæmt Hannes Hólmstein Gissurarson til að greiða Jóni Ólafssyni, kenndum við Skífuna, um 11 milljónir króna vegna ummæla sem Hannes Hólmsteinn lét falla á ráðstefnu norræna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og birti síðan á heimasíðu sinni. Fjárnámskrafa Jóns til fullnustu dómsins verður tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík í dag.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það lykilatriði í málaferlum Jóns ytra að útdráttur úr erindinu var birtur á ensku á heimasíðu Hannesar Hólmsteins og af þeim sökum hefði myndast grundvöllur fyrir málaferlum í Englandi.

Alls hljóðar krafa Jóns Ólafssonar upp á 11 milljónir með kostnaði.

Af hálfu Hannesar Hólmsteins er kröfunni mótmælt og má gera ráð fyrir að málið verði útkljáð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn þarf m.a. að taka afstöðu til þess hvort skilyrði Lugano-samningsins séu uppfyllt en hann kveður á um að dómar í einkamálum í aðildarríkjum séu viðurkenndir á milli landa. Bæði Ísland og Bretland eru aðilar að sáttmálanum.

Greip ekki til varna

Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að sér fyndist fráleitt að hægt væri að draga hann fyrir dóm í Englandi fyrir ummæli sem hann lét falla hér á landi. Jón hefði á sínum tíma, líklega árið 2003, ætlað í mál hér á landi en hætt við að ráði lögfræðinga sinna en um ári seinna ákveðið að höfða málið í Englandi. Hannes Hólmsteinn sagði að hann hefði, að ráði lögfræðinga, þ.á m. lögfræðings Háskóla Íslands, ákveðið að grípa ekki til varna og sinna málinu alls ekki neitt, m.a. vegna þess að því fylgdi gríðarlegur kostnaður að eiga í málaferlum í Englandi. Síðan hefði verið kveðinn upp útivistardómur og nú væri Jón að innheimta bæturnar með hörku.

Velur vígvöllinn

Hannes Hólmsteinn sagði merkilegt að Jón skyldi ekki treysta sér til að höfða málið hér á landi. "Mér finnst mjög sérkennilegt að hægt sé að velja vígvöllinn þannig að höfða mál í því landi sem hefur hvað ströngustu löggjöfina. Meiðyrðalöggjöfin í Englandi er miklu strangari en hér, sektir mun hærri og lögfræðikostnaður miklu meiri," sagði hann. Dómstólar hér á landi myndu aldrei, að hans sögn, dæma á þennan veg. Hefði hann ákveðið að taka til varna í Englandi hefði hann að sjálfsögðu verið sýknaður enda hefði hann einungis sagt það sem væri satt og rétt; því hefði margoft verið haldið fram að Jón Ólafsson hefði auðgast á vafasaman hátt. Þetta hefði síðast verið gert í Blaðinu fyrir skemmstu í grein Sigurður G. Guðjónssonar þar sem hann segði að Gunnar Smári Egilsson hefði haldið þessu fram.

Útdrátturinn úr erindinu var á heimasíðu Hannesar Hólmsteins frá 1999 til 2004 þegar hann lokaði heimasíðunni "til að losna við þetta stríð við Jón Ólafsson". Hannes Hólmsteinn kvaðst engan tíma hafa haft til að sinna málinu enda á kafi í ritstörfum á þessum tíma auk þess sem hann lagðist á sjúkrahús vegna veikinda stuttu eftir að málið var höfðað. "Síðan er þetta spurning um tjáningarfrelsi, þetta eru ummæli sem féllu á ráðstefnu blaðamanna. Ætla blaðamenn að sætta sig við það að það sé þaggað niður í mönnum þegar þeir gagnrýna eigendur fjölmiðlanna eins og ég var að gera þarna," sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor.

Meginreglan er önnur

Heimir Örn Herbertsson hdl., lögmaður Hannesar Hólmsteins, sagði að það kæmi sér spánskt fyrir sjónir að Jón skyldi höfða málið í Englandi. "Meginreglan er sú að kröfur sem hafðar eru uppi gegn tilteknum manni eru reknar fyrir dómstólum þar sem hann býr og á sitt varnarþing. Það eru þýðingarmikil rök sem búa þar að baki og varða meðal annars möguleika viðkomandi á að taka til varna," sagði hann.

Rut Júlíusdóttir hdl., lögmaður Jóns Ólafssonar, vildi ekki tjá sig um málið í gær að svo stöddu.

Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »