Sparisjóður Norðlendinga lokar snemma á mánudaginn

Sparisjóði Norðlendinga verður á mánudag lokað kl. 14, í tilefni af því að þann dag verða liðin 30 ár frá kvennafrídeginum sem haldinn var árið 1975. Síðar sama dag verður haldinn hátíðar- og baráttufundur í Sjallanum á Akureyri, en þangað eru allar konur í Eyjafirði hvattar til að mæta og sýna samstöðu í verki.

Í tilkynningu segir Jón Björnsson, sparisjóðsstjóri, að bæði hann og stjórn sparisjóðsins styðji þetta framtak heilshugar. „Við höfum hvatt alla okkar starfsmenn til að sækja þennan fund og því verður Sparisjóður Norðlendinga lokaður af þessu tilefni frá og með kl. 14. mánudaginn 24. október.”

mbl.is