Dagskrá kvennafrídagsins kynnt

Frá blaðamannafundi sem haldinn var Hallveigarstöðum í morgun. F.v. Kristín …
Frá blaðamannafundi sem haldinn var Hallveigarstöðum í morgun. F.v. Kristín Ástgeirsdóttir, starfsmaður Rannsóknarstofnunar í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Helga Guðmundsdóttir, forseti Kvenfélagasambands Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands og Þorbjörg I. Jónsdóttir, formaður Kvenréttindasambands Íslands. mbl.is/ Ásdís Ásgeirsdóttir

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, kynnti í morgun dagskrá kvennafrídagsins sem haldinn verður þann 24. október n.k. Að því loknu fluttu Steinunn Jóhannesdóttir leikkona og stöllur hennar lagið Áfram stelpur, en lagið var samið árið 1975 í tilefni af kvennafrídeginum þá og verður það endurútgefið í ár.

Dagskráin er á þá leið að safnast verður saman á Skólavörðuholti í Reykjavík klukkan 15 og farið í kröfugöngu niður Skólavörðustíg og að Ingólfstorgi. Yfirskrift göngunnar er „Konur höfum hátt". Eru konur hvattar til þess að leggja niður störf klukkan 14.08 en þá hafa þær unnið fyrir launum sínum, ef litið er til launamunar kynjanna en laun kvenna eru að meðaltali 64,15% af launum karla. Er þar miðað við að karlar og konur vinni frá kl. 9 til kl. 17.

Á Skólavörðuholti taka 100 konur úr Vox Feminae kórnum á móti göngukonum og -fólki og fylgja þeim syngjandi niður á Ingólfstorg. Á Ingólfstorgi hefst svo baráttufundur kl. 16:00 og er dagskrá fundarins ótímasett en röð uppákoma og ræðuhalda er þannig að fyrst tekur Léttsveit Reykjavíkur nokkur lög, þá hljómsveitin hljómsveitin Heimilistónar en þvínæst stígur Valgerður Bjarnadóttir, bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Akureyri, í pontu og flytur barátturæðu.

Að henni lokinni verður fluttur samræðuþáttur milli nútíðar og fortíðar, í umsjón Þórunnar E. Sveinsdóttur listakonu, sem ber heitið Vitjun gyðjunnar og er eftir Kristínu Ómarsdóttur leikskáld. Að þættinum loknum flytur Amal Tamimi barátturæðu en hún situr í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna og starfar í fræðsludeild Alþjóðahússins. Þá flytur listakonan Karla Dögg gjörning og Kór Kvennakirkjunnar syngur.

Því næst flytja ávarp fulltrúar heildarsamtaka launþega, þær Kristrún Björg Loftsdóttir og Marín Þórsdóttir, og að því loknu leikur hljómsveitin Áfram stelpur fyrir fundargesti. Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Femínistafélagsins, flytur barátturæðu að tónlistarflutningi loknum og undir lok fundarins kynna Steinunn Jóhannesdóttir leikkona og stöllur hennar endurútgáfu af laginu Áfram stelpur og leika það.

Edda Björgvinsdóttir leikkona mun stýra fundinum en sviðsstýra fundarins verður María Heba Þorkelsdóttir leikkona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert