Synir kvenfrelsisbyltingarinnar þakka mæðrum sínum

Sjálfsagt voru mæður í þúsundatali í miðbæ Reykjavíkur í gær.
Sjálfsagt voru mæður í þúsundatali í miðbæ Reykjavíkur í gær. mbl.is/Júlíus

Nokkrir ungir menn opnuðu í gær síðu í tilefni af kvennafrídeginum, þar sem ungum karlmönnum býðst að skrifa undir yfirlýsingu „til mæðra sinnar kynslóðar“.

Á síðunni www.takk.klaki.net, er að finna eftirfarandi yfirlýsingu frá sonum kvenfrelsisbyltingarinnar í tilefni af kvennafrídeginum: "Ástkæru mæður, það er ykkur að þakka að ásýnd íslensks þjóðfélags hefur breyst gríðarlega á undanförnum þrjátíu árum. Þið sem eruð af þeirri kynslóð kvenna sem flykktist niður á Lækjartorg árið 1975 hafið rutt úr vegi rótgrónum kreddum og arfleitt okkur að fordómalausara samfélagi þar sem fjölbreytt sjónarmið fá að heyrast og takast á,“ segir í yfirlýsingunni.

Segja mennirnir ungu breytingarnar ekki einungis hafa komið konum til góða því þær hafi sett fordæmi til eftirbreytni „með því að brjótast gegn oki almenningsálitsins og taka aðra stefnu en þá er ykkur var mörkuð kynslóð eftir kynslóð,“ segja mennirnir ungu. Þetta mikilvæga framtak hafi veitt körlum, ekki síður en konum, hugrekki til þess að „hefja okkur yfir löngu úreltar staðalímyndir,“ eins og það er orðað.

Á þriðja hundrað manns höfðu þegar skrifað sig á listann þegar Morgunblaðið hafði samband við aðstandendur síðunnar og að sögn þeirra höfðu í kringum 70 manns nýtt sér þann möguleika að senda móður sinni sérstakan þakkartölvupóst. Síðan verður opin í einn til tvo daga í viðbót, en þá verður lokað fyrir frekari undirskriftir. Smellið hér til þess að lesa yfirlýsinguna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert