Telur feðraorlofslögin hafa bætt fjárhagslega stöðu barnafólks

Árni Magnússon félagsmálaráðherra.
Árni Magnússon félagsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Íslensk lög um feðraorlof hafa bætt fjárhagslega stöðu barnafólks. Lögin hafa aukið þátttöku karla í umönnun og uppeldi barna og vísbendingar eru um að þau hafi bætt stöðu kvenna á vinnumarkaði. Árni Magnússon félagsmálaráðherra segist ánægður með árangurinn en þróunin hefur verið hraðari en menn höfðu vonast eftir.

Stefna í fjölskyldumálum og fæðingarorlof var til umræðu á málþingi á vegum velferðarnefndar Norðurlandaráðs sem haldið var á þriðjudag í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Reykjavík.

Lögin, sem sett voru fyrir fimm árum, lengdu fæðingarorlof á Íslandi úr sex mánuðum í níu. Þrír mánuðir eru bundnir föður, þrír móður og þrír eru til frjálsrar ráðstöfunar foreldra.

Að sögn Árna Magnússonar taka hátt í 90% feðra út þriggja mánaða leyfið en mæðurnar taka að jafnaði afganginn. Þessi jákvæðu viðbrögð karlanna komu í ljós strax á fyrsta ári.

„Þegar nokkuð var liðið á fyrsta árið sem lögin voru í gildi áttuðu yfirmenn slökkviliðsins í Reykjavík sig á því að þeir stóðu frammi fyrir vanda. Um fjórðungur slökkviliðsmannanna átti von á barni á árinu og allir ætluðu að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Þetta hafði auðvitað aldrei gerst áður á þessum karlavinnustað en varð til þess að kalla varð til nýja menn og þýddi það aukin útgjöld. Yfirstjórnin varð að óska eftir aukafjárveitingu frá borginni því að aldrei hafði þurft að reikna með fæðingarorlofi starfsfólks við gerð fjárhagsáætlunar. En nú þurfa karlavinnustaðir ekkert síður en kvennavinnustaðir að reikna slíkt inn í fjárhagsáætlanir sínar," sagði Árni meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert