Fasteignasjónvarpið á þremur stöðvum fer í loftið í dag

Í dag hefur Fasteignasjónvarpið göngu sína á þremur sjónvarpsstöðvum og á netinu, það er að segja á Skjánum, SkjáEinum, Sjónvarpinu, breiðbandinu og ADSL-kerfi Símans.

Fasteignasjónvarpið sendir út fasteignakynningar í sjónvarpi allan sólarhringinn. Undirbúningur að stofnun stöðvarinnar hefur staðið yfir frá því í byrjun september og gengið vel, að sögn Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Fasteignasjónvarpsins.

Áhorfendum Fasteignasjónvarpsins gefst kostur á að hafa áhrif á dagskrá stöðvarinnar með því að senda sms-skilaboð og velja þá eign sem það vill sjá. Þetta er svipað því sem þekkist á Popptíví þar sem áhorfendur geta óskað eftir ákveðnu tónlistarmyndbandi. Að öðru leyti skiptist dagskráin þannig að öll virk kvöld klukkan 20 verða sýndar nýjustu eignirnar á markaðnum. Klukkan 21 verða sýnd fjölbýlishús og klukkan 22 verða sýnd einbýlishús.

Síðastliðinn þriðjudag hóf Fasteignasjónvarpið einnig útsendingar á RÚV en þar verður sendur út 10 mínútna þáttur alla virka daga klukkan16.55 og verður hann endursýndur að loknu endursýndu Kastljósi milli klukkan tólf og eitt eftir miðnætti. Upp úr miðnætti á sunnudögum verður svo vikan tekin saman í einn þátt, svokallaðan samantektarþátt. Fasteignasjónvarpið heldur áfram á SkjáEinum klukkan 19.20. Einnig verður hægt að horfa á hverja kynningu fyrir sig á fasteignavef Morgunblaðsins og á sjónvarpsstöðina í beinni útsendingu á mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »