Ný stjórn Árvakurs kjörin

Ragnhildur Geirsdóttir og Skúli Valberg Ólafsson koma í aðalstjórn Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, og eru þau fulltrúar nýrra hluthafa. Ragnhildur er fulltrúi Forsíðu ehf., félags í eigu Ólafs Jóhanns Ólafssonar og Skúli fyrir MGM ehf., félag í eigu Straums Burðaráss fjárfestingarbanka hf.

Í dag var fram haldið hluthafafundi, sem frestað var 10. nóvember sl. Á dagskrá var stjórnarkjör. Stjórn félagsins sem var sjálfkjörin og skipt hefur með sér verkum. Hana skipa eftirtalin:

Formaður: Stefán Pétur Eggertsson
Varaformaður: Kristinn Björnsson
Ritari: Halldór Þór Halldórsson
Meðstjórnendur: Ragnhildur Geirsdóttir og Skúli Valberg Ólafsson. Í varastjórn eru Leifur Sveinsson, Hallgrímur B. Geirsson og Helga Gunnarsdóttir.

Úr stjórn gengu að eigin ósk Hulda Valtýsdóttir, Finnur Geirsson og Björn B. Thors. Í varastjórn tók jafnframt sæti Helga Gunnarsdóttir.

Á fundinum var fráfarandi stjórnarmönnum þakkað langt og farsælt samstarf og nýir stjórnarmenn boðnir velkomnir.

mbl.is