Konukot opið allan sólarhringinn

Konukot
Konukot mbl.is/Sverrir

Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag að veita fé til Rauða kross Íslands til þess að Konukot verði opið allan sólarhringinn.

Konukot er næturathvarf fyrir heimilislausar konur í Reykjavík. Athvarfið er til húsa að Eskihlíð 4, þar sem Pálmi heitinn Jónsson stofnaði sína fyrstu Hagkaupsverslun, en auk næturathvarfsins er Fjölskylduhjálp Íslands þarna til húsa.

Í samþykkt fundar Velferðarráðs kemur fram að Velferðarráð Reykjavíkurborgar telur afar mikilvægt að bæta og auka þjónustu við þá sem eru utangarðs í samfélaginu eins og samþykkt hefur verið í starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2006.

„Þá fagnar Velferðarráð skýrslu samráðshóps félagsmálaráðherra um heimilislausa og styður tillögur hópsins. Nauðsynlegt er að mæta þörfum hvers og eins, ekki einungis fyrir bráðabirgðahúsnæði heldur einnig til lengri tíma litið. Velferðarráð óskar eftir tillögum Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, Gistiskýlisins og Konukots um aðgerðir í nánustu framtíð. Þá samþykkir Velferðarráð að veita fé til Rauða kross Íslands til þess að Konukot verði opið allan sólarhringinn og felur Velferðarsviði útfærslu þessa. Jafnframt er minnt á að Gistiskýlið er nú opið allan sólarhringinn og er ætlað jafnt konum sem körlum.

Þar sem þeir sem eru húsnæðislausir eiga flestir við alvarlega geð- og fíknisjúkdóma að stríða, þá er ljóst að bregðast þarf við vanda þeirra í samstarfi Reykjavíkurborgar, félagsmála- og heilbrigðisyfirvalda. Velferðarráð lýsir yfir fullum vilja til samstarfs fyrir hönd Reykjavíkurborgar," að því er segir í tilkynningu frá Velferðarráði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert