Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í umræðum um fjáraukalagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár, að aðeins eitt væri gagnrýnisvert við ríkisfjármál á Íslandi, það að stjórnsýslan hefði allt of mikla peninga á milli handanna. Sagði Einar Oddur nauðsynlegt að leggja áherslu á þetta nú þegar að ljúka væri einhverju besta ári í sögu íslenskra ríkisfjármála.
Einar Oddur, sem er varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði að aldrei hafi tekist jafn vel og á þessu ári, að treysta fjárhag ríkisins. Þrátt fyrir það væri ýmislegt gagnrýnisvert í ríkisfjármálum, en á það gagnrýnisverðasta minntist stjórnarandstaðan ekki á einu orði, enda passaði það ekki inn í hennar hugarheim. Þess í stað kæmi stjórnarandstaðan með tillögur um að auka og efla hitt og þetta og ráðið til að fjármagna það væri hærri skattar.
„Það þarf sterk bein til að þola góða daga, segir máltækið. Það er mikið góðæri á Íslandi í dag. Þess vegna á það alltaf að vera til skoðunar hvort verið sé að nota of mikla peninga til stjórnsýslunnar, og ég svara því afdráttarlaust játandi," sagði Einar Oddur. „Þess vegna er það hið versta mál að halda að leiðin sé að hækka skatta. Leiðin er að lækka skatta. Á þeirri vegferð erum við og á þeirri vegferð ætlum við að halda áfram."