Baugur, FL Group og Fons gefa 135 milljónir til UNICEF

Pálmi Haraldsson, stjórnarformaður Fons, Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, Hannes …
Pálmi Haraldsson, stjórnarformaður Fons, Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, Hannes Smárason, forstjóri FL Group, Roger Moore og Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. mbl.is/Sverrir

Baugur Group, FL Group og Fons munu styðja við verkefni UNICEF í Gíneu-Bissá sem miðar að því að koma fleiri börnum í skóla og bæta menntun í landinu. Félögin gefa alls 135 milljónir króna til verkefnisins. Um er að ræða einn stærsta styrk sem fyrirtæki á Íslandi hafa sett í ákveðið þróunarverkefni.

Verkefnið mun veita nær 100 þúsund börnum tækifæri til að ganga í skóla og þar með breyta framtíð þeirra. Gínea-Bissá er eitt fátækasta land í heimi og kemur styrkurinn til með að vera mikil lyftistöng fyrir landið í heild.

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir að hvert fyrirtækjanna muni greiða 15 milljónir króna á ári í þrjú ár til verkefnisins.

Segir Stefán að það þurfi að vinna mikið starf í menntunarmálum Gíneu-Bissá og miðar samningur við fyrirtækin þrjú að bæta þar úr. Með því að tryggja betri gæði menntunar í grunnskólum með bættu skólaumhverfi og notkun nýrra kennslugagna fyrir allt að 96 þúsund börn.

Auk forráðamanna fyrirtækjanna þriggja voru fulltrúar UNICEF, Roger Moore og Yolanda Correia, upplýsingafulltrúi UNICEF í Gíneu-Bissá viðstödd undirritun samningsins.

Correia þakkaði fyrirtækjunum stuðninginn og fagnaði því að einkageirinn á Íslandi skuli styðja við skólagöngu barna í Gíneu-Bissá.

Segir hún að einungis 40% barna í Gíneu-Bissá njóti skólagöngu.

Roger Moore segir að biblían segi að það sé betra að gefa en að þiggja. Því hljóti eigendum þessara fyrirtækja að líða vel eftir undirritun samningsins. UNICEF sé hluti af Sameinuðu þjóðunum en njóti ekki fjárframlaga frá SÞ heldur frá opinberum aðilum og einkageiranum. Í fimmtán ár hafi hann og eiginkona hans ferðast um heiminn til þess að kynna sér það mikla og góða starf sem UNICEF hefur unnið í fátækari hlutum heimsins. Því þakki þau fyrir þennan stuðning nú sem geti bjargað mannslífum í Gíneu-Bissá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert