Íslendingar verða 300 þúsund fyrri hluta næsta árs

Íslenska þjóðin vantar nú aðeins 600 manns í að verða …
Íslenska þjóðin vantar nú aðeins 600 manns í að verða 300 þúsund.

Fólksfjölgun hefur verið óvenjumikil undanfarið ár og ef fer fram sem horfir gætu landsmenn orðið 300.000 á fyrri hluta næsta árs, að sögn Hagstofunnar. Samkvæmt þjóðskrá hinn 1. desember 2005 voru íbúar 299.404. Ári áður taldi þjóðin 293.291 og hefur landsmönnum því fjölgað um 2,1% á einu ári.

Hagstofan hefur af þessu tilefni sett upp mannfjöldaklukku á vef Hagstofunnar þar sem landsmenn geta fylgst með áætluðum mannfjölda frá degi til dags. Stofnunin bendir þó á, að nokkur óvissa sé um skráningu útlendinga í flutningum til og frá landinu. Þannig geti dregist að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í þjóðskrá og að sama skapi geti liðið nokkrir mánuðir þar til einstaklingar sem flytjast af landi brott eru felldir úr íbúaskrá.

Fólksfjölgunin í ár er meiri en verið hefur mörg undanfarin ár. Á ársgrundvelli voru fæðingar rúmlega 4200 og dauðsföll 1800, og nærri lætur að aðfluttir umfram brottflutta frá útlöndum hafi verið 3.700 talsins.

Íbúum hefur fjölgað í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra en í þessum landshlutum var fólksfækkun áþekk því sem verið hefur undanfarin ár. Fólki fækkaði í nær öllum sveitarfélögum í þessum tveimur landshlutum.

Fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallslega minni en í allmörgum landshlutum utan þess. Á höfuðborgarsvæðinu var fólksfjölgun þannig minni en landsmeðaltalið, eða 1,7% samanborið við 2,1% fyrir landið í heild. Fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu er nokkru meiri en í fyrra en álíka mikil og var næstu fimm árin þar á undan. Eins og mörg undanfarin ár fækkaði íbúum á Seltjarnarnesi (-1,9%) og í Reykjavík var fólksfjölgun minni en í öðrum sveitarfélögum á höfðuborgarsvæðinu (0,9% samanborið við 1,7%). Íbúum fjölgaði hlutfallslega mest í minnstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu (í Kjósarhreppi og Sveitarfélaginu Álftanesi). Utan þeirra var fjölgunin mest í Mosfellsbæ (5,5%) og Garðabæ (4,3%).

Mikil fólksfjölgun í nágrenni höfuðborgarsvæðis
Hagstofan segir, að undanfarin ár hafi fólksfjölgun verið óvenju mikil í nokkrum sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Á árinu 2004 var fólksfjölgun í Hveragerði þannig meiri en víðast hvar annars staðar á landinu og raunar talsvert meiri en í flestum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Á þessu ári hefur fjölgun verið mikil í öllum landshlutum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu. Langmest var hún í sveitarfélögum á Suðurnesjum en þar fjölgaði íbúum um 4,7%. Fólksfjölgun var mikil í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum, mest í Sandgerði (9,8%) en minnst í Reykjanesbæ (3,6%). Á Suðurlandi var fólksfjölgun 2,8%. Af einstökum sveitarfélögum var hún einna mest í Sveitarfélaginu Árborg (6,7%). Nokkuð hefur dregið úr fólksfjölgun í Hveragerði frá því sem var í fyrra en þar fjölgaði íbúum nú um 3,4%. Í nokkrum sveitarfélögum á Suðurlandi fækkaði íbúum, einkum í Vestmannaeyjum (-1,2%) og sveitarfélögum á austanverðu Suðurlandi. Fólksfjölgun á Vesturlandi í heild var 3,1% en þar einskorðast fólksfjölgun að mestu við stærstu þéttbýlisstaðina.

Íbúum fjölgaði um 10,2% á Austurlandi
Talsverðar breytingar hafa orðið á mannfjölda á Austurlandi undanfarin þrjú ár. Fólksfækkun var talsverð á 10. áratug 20. aldar. Með tilkomu virkjana- og stóriðjuframkvæmda hefur þróunin á Austurlandi snúist við og undanfarin tvö ár hefur íbúum hvergi fjölgað meira en á Austurlandi. Á síðasta ári fjölgaði íbúum þar um hvorki meira né minna en 10,3%. Fólksfjölgun var hlutfallslega mest í Fljótsdalshreppi (36,0%), Fljótsdalshéraði (16,1%) og í Fjarðabyggð (22,7%). Hagstofan segir, að það veki athygli að í flestum öðrum sveitarfélögum á Austurlandi fækkaði íbúum.

Þá segir stofnunin að athugun á samsetningu mannfjöldans á einstökum landsvæðum leiði í ljós athyglisverðan mun. Áberandi sé hversu mikill fjöldi útlendinga búi nú á Austurlandi samanborið við landið í heild: 24,6% allra karla og 6,4% allra kvenna á Austurlandi séu þannig með erlent ríkisfang. Í öðrum landshlutum sé hlutfall erlendra ríkisborgara mun lægra og hvergi annars staðar sé áberandi munur á hlut kynjanna. Frá 1. desember 2004 hefur íbúum með íslenskt ríkisfang fækkað á Austurlandi. Sú mikla fólksfjölgun sem átti sér stað verður því einungis rakin til aðstreymis útlendinga, að sögn Hagstofu.

Vefsvæði Hagstofunnar

mbl.is