Oktavía gengin til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri

Oktavía Jóhannesdóttir á blaðamannafundinum ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra á …
Oktavía Jóhannesdóttir á blaðamannafundinum ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra á Akureyri mbl.is/Kristján

Oktavía Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, hefur sagt skilið við Samfylkinguna og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Oktavía sagðist á blaðamannafundi á Akureyri í dag vera að íhuga hvort hún taki þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri í vor en framboðsfrestur rennur út um miðjan janúar. Mun Oktavía sitja áfram í bæjarstjórn fram á vor og sitja áfram í þeim nefndum sem hún situr í fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Að sögn Oktavíu var þetta erfið ákvörðun en Samfylkingin sé samsett úr flokksbrotum og þau sjónarmið sem hafa yfirhöndina þar séu ekki í takt við þær hugmyndir sem hún hafði sem krati þegar hún gekk í Samfylkinguna.

Oktavía segist ekki hætt að vera jafnaðarmaður og hún segist telja að hún myndi bregðast sínum kjósendum ef hún hefði hætt í bæjarstjórn núna þegar þessi ákvörðun var tekin.

Aðspurð um hvernig fyrrum félagar hennar í Samfylkingunni hafi brugðist við þessum tíðindum segist Oktavía ekki hafa mætt í talsverðan tíma á bæjarmálafundi og því ætti þetta ekki að koma á óvart. Hún hafi sent formanni Samfylkingarinnar á Akureyri tölvupóst í morgun þar sem hún hafi tilkynnt um ákvörðun sína.

„Þessi ákvörðun á sér langan aðdraganda og er tekin að vel yfirveguðu ráði en ég hef lengi haft þá tilfinningu að Samfylkingin væri ekki rétti flokkurinn fyrir mig að ég ætti ekki þar heima.

Því er þó ekki að leyna að það hefur verið mér sárt sem stofnfélaga í Samfylkingunni að þurfa að viðurkenna fyrir sjálfri mér og öðrum að flokkurinn er ekki og verður seint sá frjálslyndi og framsækni jafnaðarmannaflokkur sem við kratar reiknuðum með í upphafi.

Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Geirs H. Haarde er góður kostur fyrir frjálslyndan jafnaðarmann og ég treysti því að þar sé hljómgrunnur fyrir mörgum þeim málum sem mér og öðrum krötum eru hugleikin.

Ég tel að reynsla mín og þekking á bæjarmálum geti nýst til góðra verka í þágu bæjarbúa og mun ég vinna að því áfram að gera bæinn okkar betri.

Ég tel líka að þau sjónarmið sem ég hef staðið fyrir í pólitíkinni, frelsi, samhjálp og réttlæti eiga sér hljómgrunn meðal sjálfstæðismanna sem og annarra bæjarbúa.

Stjórnmál eiga að mínu viti að snúast um að finna bestu lausnina í hverju máli, lausn sem verður að vera bæði hagkvæm og mannvæn.

Stjórnmál nútímans eiga ekki að snúast um gamlar kreddur eða flokkadrætti fortíðar heldur stuðla að almannaheill með frelsi og réttlæti að leiðarljósi," segir í tilkynningu sem Oktavía las upp á blaðamannafundinum.

Kristján sáttur við að fá Oktavíu í Sjálfstæðisflokkinn

Kristján Þór Júlíusson, oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóri á Akureyri, segist mjög sáttur við að Oktavía sé gengin til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Hann viðurkennir að hún hafi oft veitt meirihlutanum í bæjarstjórn aðhald og hún stundum farið í taugarnar á honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert