Telur lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi mjög sigurstranglegan

Gunnar Ingi Birgisson, sem lenti í fyrsta sæti, fór yfir ...
Gunnar Ingi Birgisson, sem lenti í fyrsta sæti, fór yfir tölur ásamt fleiri sjálfstæðismönnum í Kópavogi í gær. mbl.is/Ómar
Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi lauk í gær og urðu úrslit þau að Gunnar I. Birgisson, verkfræðingur og bæjarstjóri, náði fyrsta sæti á lista flokksins en Gunnsteinn Sigurðsson, skólastjóri Lindaskóla og bæjarfulltrúi, öðru sæti. Gunnsteinn segir konur hafa unnið sigur í prófkjörinu og telji hann lista Sjálfstæðisflokksins mjög sigurstranglegan í næstu bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi.

Þá var Gunnsteinn mjög ánægður með niðurstöðu prófkjörsins. Hafi hann stefnt á 2. sætið og hafi hann náð því eftir snarpa baráttu. „Þetta var stutt prófkjörsbarátta en drengileg,“ sagði hann og bætti við að fljótlega verði sest niður og stefna mótuð fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.

Þrír karlmenn lentu í þremur efstu sætum listans en í þriðja sæti var Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra og forseti bæjarstjórnar. Í næstu sjö sætum voru konur. Gunnsteinn sagði að konur hefðu komið mjög sterkt út úr prófkjörinu og benti hann á góðan árangur Ásthildar Helgadóttur, verkfræðing og knattspyrnumann, sem lenti í fjórða sæti, og Margréti Björnsdóttur, varabæjarfulltrúa og formann umhverfisráðs, sem fór upp um þrjú sæti í prófkjörinu og endaði í 6. sæti, sem dæmi um það.

mbl.is