Olís og Skeljungur hækka einnig eldsneytisverð

Olíufélögin Olís og Skeljungur hafa í dag hækkað verð á eldsneyti en Olíufélagið hækkaði eldsneytisverð í gær. Fyrrnefndu félögin hækkuðu lítra af bensíni um 1,20 krónur, 0,20 krónum minna en Olíufélagið, og lítra af olíu um 1 krónu. Algengt verð á bensínlítra í sjálfsafgreiðslu er nú 112,40 krónur hjá félögunum tveimur og olíulítri kostar 109,20 krónur.

Atlantsolía og Orkan hafa ekki breytt eldsneytisverði í dag. Hjá Atlantsolíu kostar bensínlítri 109,80 krónur og dísilolíulítri 106,80. Hjá Orkunni er lítrinn 0,10 krónum ódýrari.

mbl.is