Viðvarandi þrengsli eru á hjartadeild Landspítalans: Veikt fólk á göngum

mbl.is/Ásdís

Afar þröngt er um sjúklinga á hjartadeild LSH og þurfa margir sjúklingar að liggja á göngum í stað hjúkrunarrýma. Þetta er óviðunandi gagnvart sjúklingum og starfsfólki að mati Ásgeirs Jónssonar hjartasérfræðings sem kveður brýnt að leita leiða til að létta álagið.

"Það er alls ekki viðunandi að veikt fólk sé vistað á gangi að staðaldri," segir Ásgeir. "Þetta er klárlega brot á heilbrigðis- og brunavarnarlögum og mannréttindum, að fólk skuli ekki fá viðunandi þjónustu."

Ásgeir segir skýringuna á ástandinu margþætta, m.a. hafi sjúkrarúmum á hjartadeild fækkað um fimmtán frá sameiningu spítalanna, en nú séu þau fjörutíu. Þá fjölgi hjartasjúklingum hraðar en þjóðinni, m.a. vegna þess að meðferð hjartasjúkdóma hafi batnað og dánartíðni lækkað. Því hafi þeim sem lifa með sjúkdómnum fölgað. Þá séu allar líkur á að hjartasjúklingum fjölgi um 50% næstu 25 árin.

Annar hluti vandamálsins er sá að deildin losnar mjög seint við hjúkrunarsjúklinga, sem eru búnir í hjarta- eða bráðameðferð, yfir á einhvers konar hjúkrunardeildir. "Ég fór yfir þetta með yfirhjúkrunarfræðingnum hér, sem sagði að jafnaði sex til átta sjúklinga á hjartadeildinni sem gætu verið annars staðar," segir Ásgeir og bætir við að í sumum tilfellum liggi fólk vikum, jafnvel mánuðum saman á deildinni og gæti fengið sambærilega og ódýrari þjónustu annars staðar. "Fólk sem þarf bara hjúkrunarþjónustu þarf ekki að liggja á bráðadeild."

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert