Samræmd gjaldskrá fyrir organista hjá FÍH óheimil

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is
Samræmd gjaldskrá fyrir organistadeild Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) fól í sér verðsamráð og braut félagið því gegn samkeppnislögum. Sátt náðist í málinu og mun FÍH draga gjaldskrána til baka en samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins skal félagið að auki greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð eitt hundrað þúsund krónur. Formaður FÍH segir að félagið muni bregðast við niðurstöðunni á næstunni.

Samkeppniseftirlitið telur umfang brots FÍH ekki verulegt og segir í úrskurðinum að ljóst verði að teljast að hagnaðarsjónarmið hafi ekki búið að baki umræddu broti. Þá liggi einnig fyrir í málinu að viðskiptaumhverfi organista sé ekki hefðbundið. Organistar líti á störf sín sem órjúfanlegan hluta af þeim helgiathöfnum sem fram fara í kirkjum landsins og gjaldskrá þeirra sé í nokkrum tengslum við kjarasamning þann sem Félag íslenskra organista hefur gert við sóknarnefndir.

Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins segir að gjaldskráin hafi verið sett einhliða af FÍH án samningsumleitana við atvinnurekanda eða aðra og því væri hún ekki sambærileg kjarasamningi líkt og FÍH hafi haldið fram. Hún feli samkvæmt eðli sínu í sér verðsamráð. Með henni sé verð hóps keppinauta á tilteknum markaði samstillt. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort litið er á taxta organleikara sem viðmiðunartaxta sem hverjum og einum þeirra er heimilt að víkja frá. Þar sem gjaldskráin sé til þess fallin að hafa áhrif á verðlagningu keppinauta, án tillits til þess hvort hún er leiðbeinandi eða bindandi, sé hún óheimil, enda grundvöllur samkeppni að keppinautar taki sjálfstæða ákvörðun um verðlagningu vöru sinnar eða þjónustu. Af þessu leiðir að FÍH hefur farið gegn samkeppnislögum með gerð gjaldskrárinnar.

Organistar ósáttir

"Við erum stéttarfélag og innan okkar raða eru einstaklingar og hópar sem hafa talið sig vera að vinna samkvæmt kjarasamningum," segir

Björn Th. Árnason, formaður FÍH. "Samkeppniseftirlitið kemst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að við séum í samkeppnisumhverfi. Við aftur á móti mótmælum því og teljum það afskaplega óæskilegt að í þessu tilfelli þá þurfi syrgjendur að leita tilboða fyrir jarðarfarir. Við teljum að þessi starfsemi sé ekki í samkeppnisumhverfi. En samkeppnislögin eru eins og þau eru. Þetta samfélag virðist snúast fyrst og fremst um verslun og viðskipti. Ég held að í flestum tilfellum flokkist menning og listviðburðir ekki innan þeirra marka."

Hann segir organista innan FÍH ósátta við niðurstöðuna en að vel geti verið að úrskurðurinn hafi þau áhrif að þjónusta þeirra hækki.

Samræmda gjaldskráin, sem nær til um 30-40 organista, var sett í kringum árið 1990 en Samkeppniseftirlitið tók málið til umfjöllunar árið 2004.

Björn segir að FÍH muni á næstunni bregðast við úrskurði Samkeppniseftirlitsins með einhverjum hætti í samráði við sinn lögmann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »