Ókeypis aðgangur að Listasafni Íslands

Listasafn Íslands.
Listasafn Íslands. mbl.is/Júlíus

Til að auðvelda aðgengi að Listasafni Íslands og auka aðsókn hefur safnið ákveðið að fella niður aðgangseyri að safninu. Er þetta gert með stuðningi Samson eignarhaldsfélags sem í dag undirritaði nýjan samstarfssamning við Listasafnið. Verður aðgangur að safninu gjaldfrjáls frá og með föstudeginum 24. febrúar að því er segir í tilkynningu.

„Það er okkur hjá Listasafni Íslands mikið fagnaðarefni að geta boðið ókeypis aðgang að safninu og sýningum og það er von okkar að þessi ákvörðun verði til þess, að breikka og stækka þann hóp sem kemur í safnið,“ segir Ólafur Kvaran safnstjóri Listasafns Íslands í tilkynningu. Hann segir að það sé sameiginlegt mat Listasafnsins og menntamálaráðuneytisins að það sé mikilvægt menningarpólitískt markmið að auka aðsókn að menningarstofnunum. Í nágrannalöndunum hafi aðsókn aukist að listasöfnum verulega þegar aðgangseyrir var felldur niður.

Eignarhaldsfélagið Samson og Listasafn Íslands hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að Samson verður aðalstyrktaraðili Listasafns Íslands næstu þrjú árin. Á samningstímanum mun Samson styrkja Listasafnið um 45 milljónir króna sem verður varið til að efla starfsemi þess. Gerir þessi samstarfssamningur Listasafninu m.a. kleift að fella niður aðgangseyrir.

„Um leið og aðgangseyrir að safninu er felldur niður verður þjónusta við gesti aukin með ýmsum hætti. Eitt af markmiðum Listasafnsins er að efla menntunar- og fræðsluhlutverk sitt og því verður föstum leiðsögnum um safnið fjölgað. Þá verður opnað nýtt fræðslusetur í safninu næsta vor þar sem gestum mun meðal annars gefast kostur á að nýta margmiðlunartækni til að skoða á tölvuskjám alla listaverkaeign safnsins eftir íslenska listamenn, alls um 8000 verk. Unnið hefur verið að því að setja þessi verk á tölvutækt form ásamt miklu magni upplýsinga um þann listræna menningararf þjóðarinnar sem varðveittur er í Listasafni Íslands. Opnun fræðslusetursins er mikilvægt skref í að styrkja þjónustuhlutverk safnsins og að auðvelda aðgengi gesta að þessum mikilvæga þætti íslenskrar menningar,“ segir í tilkynningu.

Á síðustu árum hafa Actavis og þar áður Pharmaco, verið aðalstyrktaraðilar Listasafns Íslands.

mbl.is