Sá bílinn í sprungunni og heyrði að einhver flautaði

Björgunarsveitarmenn við sprunguna þar sem bíllinn fór niður.
Björgunarsveitarmenn við sprunguna þar sem bíllinn fór niður. mbl.is/Ómar Ragnarsson
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is
Arnar Þór Hjaltason, 23 ára Eyfirðingur búsettur á Akureyri, ók fyrsta jeppanum í röð þeirra þriggja sem voru á Hofsjökli á laugardaginn. Hann ók yfir sprunguna, sem gaf sig, skömmu áður en slysið varð, en segist ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt.

Þeir voru fjórir sem fóru á þremur bílum frá Akureyri klukkan átta á laugardagsmorgun. Óku upp úr Eyjafirði og þaðan áfram upp á jökul. Fóru upp á hábungu jökulsins og ætluðu að halda heim á leið á ný þegar slysið varð. Höfðu hugsað sér að koma við í Laugarfelli, baða sig þar í lauginni og ráðgerðu að koma heim til Akureyrar á milli klukkan 9 og 10 um kvöldið.

"Við fórum upp á hábunguna, ég fór fyrstur niður og þegar ég var kominn niður á flatann - um það bil einum kílómetra frá þeim stað þar sem slysið varð - hafði Dóri samband við mig í gegnum talstöðina og sagði að félagi okkar hefði keyrt yfir sprungu, sem hefði hrunið úr, en allt væri samt í lagi," sagði Arnar Þór í samtali við Morgunblaðið í gær. Dóri er Halldór Örn Árnason, vinur Arnars Þórs og jafnaldri, en Halldór ók bílnum sem var annar í röðinni.

Arnar sá brekkuna vel neðan að. Hann leiðbeindi Halldóri niður af bungunni í gegnum talstöðina og síðan ætlaði hann að aðstoða félaga þeirra tvo, sem voru á síðasta jeppanum, með sama hætti. "En svo heyrðum við ekkert í þeim og sáum ekki bílinn þannig að við fórum upp eftir aftur. Þegar þangað kom heyrðum við ekkert í bílnum þeirra."

Kallaði til félaganna en fékk ekkert svar

Þeir Halldór vissu einungis af sprungunni sem hrunið hafði úr fyrst. Þeir óku mestalla leiðina upp á ný en gengu síðasta hlutann og áttuðu sig fljótlega á því sem hafði gerst. "Um leið og við sáum sprunguna, förin mín öðrum megin og förin eftir þeirra bíl hinum megin við hana, vissum við hvað hafði gerst."

Halldór og Arnar sáu jeppann ofan í sprungunni þegar þeir kíktu þangað af brúninni og þá hljóp Arnar strax niður í sinn bíl til þess að hringja eftir hjálp.

"Við Dóri sáum jeppann þegar við lögðumst á magann á brúninni og horfðum niður í sprunguna. Ég kallaði á þá en fékk ekkert svar. En ég skynjaði lífsmark þarna niðri; heyrði að einhver ýtti á bílflautuna og hafði kveikt ljósin."

Á leiðinni niður af bungunni ók Halldór ekki sömu leið og Arnar, og fyrst í stað fór þriðji bíllinn heldur ekki í slóð hans, "en eftir að hrundi undan honum í fyrra skiptið færði hann sig aftur inn á mína slóð og ætlaði að þræða hana niður; taldi sig öruggari þar. En þá lenti hann í sprungunni sem við vissum ekkert um. Ég fór þarna yfir stuttu áður og varð ekki var við neitt. Það var óslétt þarna, eins og þetta væru öldur, en þannig er svæðið allt."

Arnar segir að hringt hafi verið í þá Halldór til baka frá Neyðarlínunni og tilkynnt að um það bil þrír stundarfjórðungar væru þar til þyrlan kæmi á vettvang, en einn og hálfur klukkutími hefði reyndar liðið þar til hún kom.

Erfitt að bíða

Hann segir það hafa verið óþægilega tilfinningu að bíða. "Það var samt skárra að vera tveir heldur en ef maður hefði beðið einn." Arnari fannst líka slæmt að geta ekki komið félögum sínum til hjálpar niðri í sprungunni. "En við höfðum engan búnað til þess, við hefðum þurft mannbrodda og ísaxir og bíl á staðnum til þess að láta okkur síga niður."

Sá sem slasaðist og fluttur var með þyrlu til Reykjavíkur er tengdur Arnari; eiginkona Arnars og hinn slasaði eru systkinabörn. "Ég náði ekkert að tala við hann. Hann var fluttur með þyrlunni burt um leið og hægt var," sagði Arnar sem hyggst fara til Reykjavíkur í dag til þess að hitta vin sinn á sjúkrahúsinu.

Arnar segir þá Halldór hafa verið í mikilli óvissu allan tímann sem þeir biðu. "Það var svo ekki fyrr en skömmu fyrir miðnætti að mér var sagt að Tómas væri farinn."

Ekki var haldið af stað niður af jöklinum fyrr en hinn slasaði hafði verið fluttur burt í þyrlunni. "Þá fóru allir saman niður. Föðurbróðir minn í hjálparsveitinni Dalbjörgu kom uppeftir og líka strákar sem ég hef ferðast mest með. Með okkur voru líka tveir slökkviliðsmenn frá Akureyri, báðir frændur mínir."

Arnar var kominn heim til sín á Akureyri um klukkan hálfsjö í gærmorgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »