Skrifað undir samninga við Portus-hópinn um tónlistarhús

Skrifað undir samninginn um tónlistarhús í Ráðherrabústaðnum nú síðdegis.
Skrifað undir samninginn um tónlistarhús í Ráðherrabústaðnum nú síðdegis. mbl.is/ÞÖK

Samningur milli Portus-hópsins, sem átti vænlegasta tilboðið í hönnun, byggingu og rekstur tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels í Reykjavík, og Austurhafnar-TR, framkvæmdafélags í eigu ríkis og borgar um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar, var undirritaður í Ráðherrabústaðnum í dag.

Samninginn árituðu menntamálaráðherra, samgönguráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík, ásamt fulltrúum Portus og Austurhafnar. Gert er ráð fyrir að bygging tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar taki þrjú ár og verður strax hafist handa við að rífa þau mannvirki sem fyrir eru á lóðinni. Stefnt er að því að starfsemi hefjist í húsinu haustið 2009 og hótelið verði opnað á sama tíma.

Í tilkynningu kemur fram, að Portus hf., sem er í eigu Landsafls hf. og Nýsis hf., fái úthlutað sérleyfi til að byggja tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina og verði sérstök rekstrar- og fasteignafélög stofnuð um starfsemina.

Jafnframt hefur Portus ákveðið að kaupa allan byggingarrétt á byggingareitnum fyrir verslun, þjónustu og íbúðir og verður væntanlega stofnað sérstakt félag um þá uppbyggingu. Þetta félag mun vera ábyrgt fyrir því að fimm stjörnu alþjóðlegt hótel rísi við hlið tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar og mun jafnframt eiga að hluta eða öllu leyti öll önnur hús og bílageymslur á reitnum.

Íslenskir aðalverktakar hf. eru stýriverktakar Portus og munu byggja öll hús og mannvirki sem samningurinn kveður á um. Þeir sjá einnig um ákveðna þætti í undirbúningi lóðar, vegaframkvæmdir o.fl.

Danska arkitektastofan HLT, Henning Larsen Tegnestue A/S, hannar húsið og er Batteríið arkitektar ehf. þeim til aðstoðar. Ólafur Elíasson er listrænn hönnuður glerkápunnar sem mun umlykja húsið og Vladimir Ashkenazy er sérlegur listrænn ráðgjafi Portus varðandi dagskrá tónlistarhússins fyrstu árin. Verkfræðistofurnar Rambøll Danmark A/S, Hnit hf. og Hönnun hf. eru helstu tæknilegu ráðgjafar og hljómburður er á ábyrgð bandarísku ráðgjafanna Artec, sem og sviðsbúnaður og sviðslýsing en Austurhöfn leggur fram ráðgjöf þeirra til verksins.

12,5 milljarða króna stofnkostnaður
Stofnkostnaður tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar er áætlaður 12,5 milljarðar króna og þar við bætist kostnaður við byggingu hótels og annarra mannvirkja, þ.á.m. nýrra höfuðstöðva Landsbanka Íslands.

verkefnið verður fjármagnað með eigin framlagi eigenda Portus ásamt lánsfé, auk fasts árlegs framlags eigenda Austurhafnar (um 608 milljónir króna á ári á núvirði) og leigugreiðslna frá Sinfóníuhljómsveit Íslands (um 75 milljónir á ári á núvirði). Landsbankinn er aðalfjármögnunaraðili Portus en Austurhöfn hefur jafnframt beint samningssamband við bankann til að tryggja samræmi samninga.

12 byggingareitir
Samkvæmt deiliskipulagstillögu fyrir TRH reitinn, sem þegar hefur verið auglýst, verður lóðin ein heild, allt frá hinni nýju Tryggvagötu við Lækjartorg að Ingólfsgarði, og nemur leyfilegt byggingamagn á henni samtals 91 þúsund fermetrum, auk bílastæða neðanjarðar og u.þ.b. 14 þúsund fermetra í kjöllurum.

Meginmarkmið deiliskipulagsins er að skapa viðeigandi umgjörð um tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina sem verður áberandi kennileiti í ásýnd borgarinnar. Aðalbyggingarnar eru fimm, fjórar meðfram nýrri göngugötu, Reykjastræti, sem liggur frá Lækjartorgi undir Geirsgötu að nýju torgi, Reykjatorgi, en tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðin er norðan þess.

Þá er reiknað með að fyrirhugaður viðlegukantur fyrir skemmtiferðaskip austan við tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina geti einnig síðar meir tengst Reykjastræti. Er gert ráð fyrir því í samningnum að ákveðið samráð verði haft við Portus um deiliskipulag þessa svæðis norðan Sæbrautar, til að tryggja öflugt samspil þess við tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina og nýja ásýnd norðurhluta Kvosarinnar.

Í sérstökum fylgisamningi Austurhafnar og Portus er staðfest samkomulag Reykjavíkurborgar við Íslenska aðalverktaka um að þeir annist vinnu við fyllingu í Austurbugt, gatnagerð sem borgin og Vegagerðin eiga að kosta, flutning ræsis, niðurrif húsa á lóðinni o.fl. Þá stendur borgin straum af kostnaði við flutning Zimsen-hússins og könnun fornleifa á svæðinu.

Breytingar innanhúss
Teikningar að tónlistarhúsinu og ráðstefnumiðstöðinni eru nú í frekari vinnslu og er stefnt að því að leggja fram bygginganefndarteikningar í haust. Útlit hússins verður í öllum meginatriðum eins og sýnt var á tilboðsteikingum sl. haust en heildarstærð hússins hefur þó aukist vegna plássfrekra tæknirýma.

Aðalsalurinn mun taka 1800 áheyrendur, ráðstefnusalurinn verður 750 sæta, tvískiptanlegur, og 450 sæti verða í æfinga- og kammermúsíksalnum. Þá hefur fjórða salnum verið breytt í fastan tónleika- og ráðstefnusal sem á að taka 180-200 áheyrendur, auk þess sem bætt hefur verið við öðrum minni ráðstefnusal. Bílastæði verða undir öllum húsunum nema tónlistarhúsinu og ráðstefnumiðstöðinni.

Minni háttar sýningaraðstaða verður til staðar í tengslum við ráðstefnuhald. Tónleikar verða í öllum sölunum sem verða almennt leigðir út, auk þess sem framkvæmdaaðili sér einnig að hluta um tónleikahald.

Stjórnir rekstrar- og fasteignafélaga TR verða skipaðar af Portus. Listrænn stjórnandi verður aðalframkvæmdastjóri og sérstakt listráð mun starfa við hlið stjórnar rekstrarfélagsins, skipað fulltrúum frá framkvæmdaaðila, menntamálaráðuneyti, Reykjavíkurborg, Sinfóníuhljómsveit Íslands og hagsmunaaðilum tónlistarlífsins. Jafnframt verður stofnuð sérstök tónlistarakademía við tónlistarhúsið til að styðja við bakið á efnilegu tónlistarfólki og efla tónlist í landinu.

Strax í þessum mánuði verður hafist handa við að rífa mannvirki sem eru á lóðinni við Austurhöfn og standa vonir til þess að hægt verði að taka fyrstu skóflustunguna að tónlistarhúsinu og ráðstefnumiðstöðinni innan nokkurra vikna, þó svo vinnu við niðurrif Faxaskála verði ekki lokið fyrr en 15. október nk. og mannvirki á bensínstöðvarlóðinni verði ekki horfin fyrr en 1. febrúar á næsta ári.

Með þessu móti getur undirbúningsvinna við TR hafist á sama tíma og vinna stendur yfir við lagnir og gatnagerð en samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að bygging tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar taki alls þrjú ár. Á starfsemi að hefjast í húsinu haustið 2009, nánar til tekið í september. Stefnt er að því að hótelið taki til starfa á sama tíma en ekki er hægt á þessari stundu að tímasetja aðrar tengdar byggingaframkvæmdir.

Tónlistarhúsið samkvæmt tillögu Portus-hópsins.
Tónlistarhúsið samkvæmt tillögu Portus-hópsins.
Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag. mbl.is/ÞÖK
mbl.is