Geir segir Bandaríkjaforseta hafa metið mikils tillögur Íslendinga

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ákvörðun Bandaríkjaforseta um að dregið verði stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári hafi valdið ríkisstjórninni miklum vonbrigðum og að sjálfur hefði hann talið eðlilegt, að slík ákvörðun hefði verið tekin í viðræðum þjóðanna en ekki með einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna.

Þá sagði hann að fram hafi komið í viðræðum íslenskra stjórnvalda við fulltrúa Bandaríkjastjórnar í gær að Bandaríkjastjórn telji Íslendinga hafa lagt fram mikilverðar tillögur á fundi fulltrúa þjóðanna í síðasta mánuði og að þeir meti þessar hugmyndir. Það hafi þó orðið ofan á að Bandaríkjaforseti hafi fallist á tillögu Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, um að fastri viðveru orrustuþotna Bandaríkjahers hér á landi verði hætt og að breyttar aðstæður og álag á Bandaríkjaher í öðrum heimshlutum hafi valdið mestu þar um.

mbl.is