Tímabært fyrir Ísland að móta sjálfstæða utanríkisstefnu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/ÞÖK

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi íslensk stjórnvöld harðlega á Alþingi í dag fyrir það hvernig haldið hafi verið á samskiptum við Bandaríkjastjórn um varnarmál. Sagði Ingibjörg Sólrún, að nú væri tímabært fyrir Íslendinga að móta sjálfstæða utanríkisstefnu og meta sjálfir hvaða hættur steðja að og hvernig bregðast eigi við þeim. Sagði hún að Íslendingar ættu að koma á fót sjálfstæðri stofnun um öryggis- og friðarmál.

Ingibjörg Sólrún sagði, að íslensk stjórnvöld hefðu lagt af stað með úrelta heimsmynd en væru komin aftur á byrjunarreit eftir 11 ára samningaviðræður við Bandaríkjastjórn. Sagði hún að stjórnvöld hefðu haft röng samningsmarkmið og rangar hugmyndir um eigin stöðu gagnvart Bandaríkjastjórn og væru stefnulaust rekald í utanríkismálum.

Bandaríkjamenn hefðu á samningafundi í ágúst 1993 lagt fram tillögu um að orrustuþoturnar, 12 talsins þá, hyrfu frá Keflavíkurflugelli. Af því varð ekki en samkvæmt samkomulagi, sem gert var í kjölfarið, var þotunum fækkað úr 12 í 4. Síðan hefði enginn árangur náðst í viðræðum við Bandaríkjamenn, þótt ríkisstjórnin hefði dregið íslensku þjóðina inn í stríðsrekstur í Írak í þeirri von að það komi sér vel.

Þá hefði því verið haldið fram að íslenskir ráðamenn væru í góðum tengslum við George W. Bush, Bandaríkjaforseta, og Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra, en árangurinn væri enginn. Stjórnvöld hefðu haldið dauðahaldi í fjórar úr sér gengnar herþotur og sagt að þær væru forsendur þess að halda uppi vörnum í landinu.

Ingibjörg Sólrún sagði, að engin ástæða væri til að Íslendingar geri úr þessu samninga um að landið verði einskonar æfingastöð fyrir Bandaríkjaher heldur ætti að horfa til annarra átta. Tímabært væri að móta sjálfstæða utanríkisstefnu og Íslendingar eigi sjálfir að meta hvaða hættur steðja að og hvernig bregðast eigi við þeim. Þá stakk Ingibjörg Sólrún upp á því að Íslendingar kæmu á fót sjálfstæðri stofnun um öryggis- og friðarmál. Það væri gæfa Íslendinga að engin árásarhætta vofði nú yfir í Norður-Atlantshafi og í því fælust miklir möguleikar. Íslendingar ættu að ganga á undan við að styrkja mannréttindi í heiminum, efla þjóðarrétt og hugsa stærra og lengra en áður hafi verið gert í utanríkismálum.

„Okkur bíður það hlutverk að bregðast við breyttum aðstæðum í heiminum og móta nýja utanríkisstefnu sem getur leyst hina gömlu og úreltu stefnu Sjálfstæðisflokksins af hólmi," sagði Ingibjörg Sólrún.

Bar að með ótrúlega óskammfeilnum hætti
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði að gleðilegt væri, að sá tími sé að renna upp að Íslendingar verði án erlends hers og það hljóti að leiða til þess að herstöðinni á Miðnesheiði verði lokað og því lýst yfir að þjóðin standi utan hernaðarbandalaga.

Sagði Ögmundur, að þingmenn VG teldu að besta leiðin fyrir Íslendinga til að láta best af sér leiða og jafnframt að tryggja öryggi lands og þjóðar, væri að fylgja öruggri stefnu og réttlátri á alþjóðavettvangi en standa sem fjærst hernaðarþjóðum á borð við Bandaríkin.

Þá sagði Ögmundur, að það vekti athygli hvernig ákvörðun Bandaríkjanna um að flytja herflugvélar héðan hefði borið að. Sagði hann að framkoma Bandaríkjastórnar væri ótrúlega óskammfeilin og niðurlægjandi, einkum í ljósi jákvæðra lýsinga utanríkisráðherra Íslands á nýlegum fundum með bandarískum embættismönnum í Washington. Spurði Ögmundur, hvort verið gæti, að Geir H. Haarde hafi setið allt annan fund en hann hélt að hann hefði setið í Washington fyrir skömmu.

Ögmundur sagði að Bandaríkjastjórn hefði aldrei haft herlið á Íslandi nema til að þjóna eigin hagsmunum. Þegar það þjónaði hernaðarhagsmunum væru þeir farnir og hirtu ekki um lágmarkskurteisi. Samt hefði hér setið fylgisspök ríkisstjórn sem hefði gert Íslendinga samseka í einhverjum mestu voðaverkum síðustu ára.

Nú skipti máli að ganga markvisst að því að yfirtaka alla þá þætti á Keflavíkurflugvelli, sem að Íslendingum snéru og byggja upp atvinnulíf á Suðurnesjum. Taka eigi alvarlega þann vanda sem fjöldi einstaklinga og fjölskyldna muni standa frammi fyrir á næstu misserum vegna atvinnumissis og jafnframt ætti að taka allt, sem lúti að öryggi landsmanna, föstum tökum. Íslensk stjórnvöld hefðu að þessu leyti hætt að berja höfðinu við steininn og því hefði VG fagnað þeirri yfirlýsingu utanríkisráðherra í febrúar, að Íslendingar hefðu boðist til að yfirtaka hluta af rekstri Keflavíkurflugvallar og þyrlusveitarinnar.

Varnarsamninginn í pappírstætarann
Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að lengi hefði verið ljóst að Bandaríkjamenn væru á förum og hann hefði varað við því og lagt til að kannað verði hvort grundvöllur væri fyrir samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir NATO.

Magnús sagði að 50 ára varnarsamstarfi hefði lokið með einu símtali og síðan verið skellt á. En áfram héldi ríkisstjórnin með betlistaf og nú ætti að skrifa bréf til Bush. „Hvers konar aumingjaskapur er þetta gagnvart Bandaríkjamönnum?" spurði Magnús og sagðist telja að tími væri kominn til að setja varnarsamninginn í pappírstætarinn.

Þá sagði Magnús, að þótt nú sé friðsamt á Norður-Atlantshafi væri ekki víst að það væri til frambúðar. Hann benti á að Rússar væru enn á sínum stað og ekki væri langt síðan þeir voru með stóran herskipaflota á þessu svæði. Evrópuþjóðir NATO hefðu einnig áhuga á svæðinu og Íslendingar ættu að nýta sér það.

Magnús sagðist sjá það fyrir sér að Íslendingar gætu þurft að efla og þjálfa íslenskar sérsveitir, sem hér yrðu í samstarfi við NATO. Hingað gæti borist liðsauki með skömmum fyrirvara og Landhelgisgæslan gæti fengið aukið hlutverk.

Evrópuþjóðir geta ekki hlaupið í skarðið
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði að varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn væri enn í gildi en spurningin sé hvernig eigi að framfylgja honum í ljósi síðustu atburða. Sagði hann að von væri á frumvarpi Landhelgisgæsluna innan skamms og einnig væri verið að huga að endurskipulagningu almannavarna í ljósi nýrra aðstæðna.

Björn sagði rangt að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi látið reka á reiðanum og ekki mótað stefnu í samræmi við breyttar aðstæður. Gerðar hefðu verið tvær skýrslur um þróun varnarmála, árin 1993 og 1999 og ekkert hafi breyst í grundvallaratriðum frá árinu 1999 en á síðustu árum hefði verið fylgt þeim meginsjónarmiðum sem þá voru kynnt.

Björn sagði að horfa þyrfti til ýmissa þátta og íslensk stjórnvöld hefðu lagað öryggismál að kröfum hvers tíma. Hann sagði það misskilningur að Evrópuþjóðir væru tilbúnar til að hlaupa í skarðið fyrir Bandaríkin þegar litið væri til þess samstarfs, sem verið hafi á grundvelli varnarsamningsins, og Evrópuþjóðir NATO réðu ekki yfir því sameiginlega afli sem geti komið í stað Bandaríkjanna.

Hins vegar væri hægt að huga að ýmiskonar samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. Sagðist Björn m.a. telja skynsamlegt að ganga frá formlegum samningi við Dani um öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi, og það yrði til að auðvelda samskipti Landhelgisgæslunnar og dönsku flotastjórnarinnar. Þá væri spurning hvort taka eigi upp nánara samstarf við Bretland.

Björn sagði m.a. ljóst, að þótt Íslendingar keyptu þyrlur í stað bandarísku þyrlnanna yrði það ekki þyrlusveit, sem gæti notað eldsneytisflugvélar. Bandaríkjamenn væru eina þjóðin sem réði yfir slíkum sveitum. Því yrði að huga að því við endurnýjun skipa Landhelgisgæslunnar að þyrlur geti fengið þar eldsneyti.


Varnarsamningurinn brotinn

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði, að allt það sem Björn segði að nú ætti að fara skoða hefði Samfylkingin bent á undanfarin ár, að ætti að vera undanfari þeirrar stöðu sem nú væri komin upp.

Össur sagði að stóru flokkarnir þrír hefðu verið sammála um það, að burðarásar utanríkisstefnu eigi að vera Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn. En sá samningur hefði verið túlkaður þannig, að ekki væri hægt að taka einhliða ákvarðanir um viðbúnað hér á landi og þar væru tveir að leik sem yrðu að ná sameiginlegri niðurstöðu. Nú hefðu Bandaríkjamenn því brotið þennan samning með því að taka einhliða ákvörðun.

Össur sagði að utanríkisráðherra hefði nú sett spurningarmerki við varnarsamninginn, sem væri eðlilegt þar sem samningurinn væri í uppnámi. Engin bókun við samninginn hefði verið í gildi í fimm ár og ekki hefði tekist að ná fram neinni niðurstöðu. Þá sýndi atburðarrásin dómgreindarbrest hjá utanríkisráðherra, sem hefði ítrekað sagt að landsýn væri í málinu. Ljóst væri að haldið hefði verið illa á málinu og það væri áfall fyrir utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins.


Litið til Norðurlanda

Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að auka þyrfti samstarf og samhæfingu þeirra aðila, sem ætlað væri að tryggja innra öryggi okkar, svo sem lögreglu, slökkviliðs, Landhelgisgæslu, björgunarsveita.

Jónína lagði áherslu á að Ísland væri aðili að NATO og Schengen, og í viðræðum við Bandaríkjamenn hlyti að verða að ræða hvernig koma eigi á samstarfi um viðbrögð við hinum nýju ógnum, sem steðja að.

Þá sagðist Jónína telja, að líta eigi meira til norræns samstarf en m.a. hefði norrænt lögreglusamstarf verið eflt.

Búið þannig um hnúta að þjóðin verði ekki varnarlaus
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, sagði í lok umræðunnar, að sér hefði heyrst að stjórnarandstaðan skiptist í tvo hópa. Annars vegar þá, sem fögnuðu þessari niðurstöðu og væru þar samkvæmir sjálfum sér, og hins vegar þingmenn sem virtust ekki vita í hvort fótinn þeir ættu að stíga og sökuðu ríkisstjórn um aðgerðarleysi og utanríkisráðherra um dómgreindarbrest.

Geir sagði að það væri grundvallarskylda stjórnvalda að tryggja öryggi borgaranna inn á við og út á við. Samningurinn við Bandaríkin hefði miðað að því að tryggja Íslendinga gagnvart utanaðkomandi ógn. Nú hefði heimsmyndin breyst. Geir sagðist telja það rétt mat, að engin hætta steðji nú að Íslendingum frá öðru lýðfrjálsu ríki en það sé margskonar önnur ógn í okkar heimshluta. Þá vissu menn ekki hvernig ógnin verði eftir nokkur ár og hvaðan hún kunni að stafa. Verkefnið væri að búa þannig um hnútana að þjóðin verði ekki varnarlaus, hvort sem það gerist með samkomulagi í breyttri mynd við Bandaríkin eða öðrum hætti. Geir lagði síðan áherslu á, að kjarni málsins væri að Bandaríkin ætluðu sér ekki að hlaupa frá varnarsamningnum þótt þeir ætli að breyta um varnarviðbúnað.

mbl.is