Eldur kom upp í skipi í eigu Ísfélags Vestmannaeyja í Póllandi

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Eldur kom upp í skipinu Guðmundi VE í gær, sem er í eigu Ísfélags Vestmannaeyja, en skipið er statt í skipasmíðastöð Póllandi. Að sögn Eyþórs Harðarsonar, útgerðarstjóra félagsins, kom eldur upp í aftari frystilest skipsins um kvöldmatarleytið í gær. „Það voru heilmiklar skemmdir á framskipinu; semsagt uppi á millidekki og vinnsludekki,“ sagði Eyþór.

Hann segir að svo virðist sem að afturhluti skipsins hafi sloppið.

Eyþór segir að skipið sé nýkomið til Póllands, en það kom sl. laugardag. Þar átti það að vera í 12 vikur. Hinsvegar sé nú ljóst að sá tími mun lengjast eitthvað vegna og tefja þar með fyrirhugaðar veiðiáætlanir skipsins. „Það er allt í athugun núna hvað þetta eru miklar skemmdir og hvað þetta tekur mikinn tíma að koma því stand aftur. Væntanlega mun þetta trufla plönin eitthvað verulega,“ sagði Eyþór í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Aðspurður segist hann ekki vita að svo stöddu hver eldsupptökin séu. Unnið er að því rannsaka það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert