Hæstiréttur getur kvatt til vitni

„Ef Hæstiréttur ætlar að sakfella mann, sem hefur verið sýknaður í héraði, á grundvelli munnlegra framburða, þá verður rétturinn að kveðja vitni og aðila málsins fyrir til yfirheyrslu," sagði Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið. Magnús sagði að það heyrði til algjörra undantekninga að vitni væru látin gefa skýrslu fyrir Hæstarétti.

Verði vitni ekki kvödd fyrir Hæstarétt er hann bundinn af mati héraðsdóms á trúverðugleika vitnanna. Hæstiréttur getur hins vegar lagt eigið mat á önnur sönnunargögn, t.d. skjöl sem lögð voru fram í héraðsdómi. Í þessu sambandi hefur verið vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sumarið 2003 þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur Íslands hafi brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með því að sakfella mann, sem hafði verið sýknaður í undirrétti, án þess að kalla hann sjálfan og vitni fyrir að nýju. Magnús Thoroddsen flutti málið fyrir Mannréttindadómstólnum.

„Skjólstæðingur minn hafði verið sýknaður í héraði. Síðan var máli hans áfrýjað til Hæstaréttar og þar var hann sakfelldur, án þess að fram færu yfirheyrslur aftur yfir vitnum og aðilum. Það var talið að væri brot á 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð." Magnús sagði að þetta væri einnig í samræmi við 159. grein laga um meðferð opinberra mála (19/1991).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert