75 ár frá fyrstu björgun með fluglínutækjum

Núpur á strandstað á Patreksfirði árið 2001
Núpur á strandstað á Patreksfirði árið 2001 Þorgeir Baldursson

Í dag eru liðin 75 ár frá því að svokölluð fluglínutæki voru fyrst notuð til björgunar á Íslandi. Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir að fljótlega eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands árið 1928 var hafist handa við stofnun slysavarnadeilda og björgunarsveita víða um land og voru fluglínutækin fyrstu eiginlegu björgunartæki margra þeirra.

Fluglínutæki er búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum og kom fyrst fram á sjónarsviðið í Bretlandi í kringum 1850 í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.

Í tilkynningunni segir að aðfaranótt 24. mars 1931 hafi franski síðutogarinn Cap Fagnet strandað á Hraunsfjörum austan Grindavíkur. Um borð var 38 manna áhöfn. Slæmt veður var þegar togarinn strandaði og ljóst að ekki væri unnt að yfirgefa skipið á björgunarbátum togarans. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við og tókst að bjarga allri áhöfn togarans með hinum nýja björgunarbúnaði.

„Björgunin markaði ákveðin tímamót og færði mönnum heim sannindi þess hversu öflug björgunartæki fluglínutækin voru og flýtti mjög fyrir útbreiðslu þeirra. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjunum og björgunarsveitum á Íslandi líf sitt að launa.“

Þá segir að fluglínutæki hafi síðast verið notuð við björgun þegar línuskipið Núpur BA strandaði við Patreksfjörð í nóvember 2001. Björgunarsveitirnar Blakkur og Tálkni björguðu þá 14 manna áhöfn skipsins.

Hér gefur að líta franska síðutogarann Cap Fagnet er strandaði …
Hér gefur að líta franska síðutogarann Cap Fagnet er strandaði á Hraunsfjötum austan Grindavíkur aðfararnótt 24. mars 1931. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert