Sinueldur nálgast jörðina Klett í Reykholtsdal

Miklir sinueldar hafa geisað á suðvesturlandi í dag.
Miklir sinueldar hafa geisað á suðvesturlandi í dag. Ásdís Haraldsdóttir

Sinueldur fór úr böndunum í Reykholtsdal í kvöld og nálgast eldurinn nú jörðina Klett. Slökkviliðsstjóri slökkviliðsins í Borgafjarðardölum, Pétur Jónsson, segir sína menn nú vinna hörðum höndum að því að slökkva eldinn sem nálgist trjágróður á Kletti. Tveir bændur sem leyfi höfðu til að brenna sinu misstu tök á eldinum í dag og segir Pétur að banna ætti sinubrennu með öllu.

Pétur segir elda loga á stóru svæði og að jörðin sé afskaplega þurr. „Við erum búnir að dæla upp úr Reykjadalsá en þetta er óhemjulangt svæði sem við þurfum að flytja vatnið yfir,“ sagði Pétur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins um hálftíuleytið í kvöld. Hann byggist við því að hægt væri að slökkva eldinn en því yrði sjálfsagt ekki lokið fyrr en undir morgun. „Við vorum að koma úr öðru útkalli við Mófellsstaði í Skorradal þegar við fengum þetta útkall þannig að við erum búnir að vera lengi að.“

Kveikt var í sinunni við bæinn Deildartungu en eldurinn fór úr böndunum þegar tók að hvessa með deginum. „Þetta er bara gömul árátta að brenna sinu, það ætti bara að banna þetta alfarið. Þessi maður hafði leyfi frá sýslumanni en þetta ætti bara að banna,“ sagði Pétur. Hann ætti þó ekki von á því að skemmdir yrðu á eignum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert