Stefnt að því að hefta för sinueldsins á Mýrum við Ánastaði

Tugir ferkílómetra af gróðurlandi hafa brunnið á Mýrum frá því …
Tugir ferkílómetra af gróðurlandi hafa brunnið á Mýrum frá því í gær. mbl.is/Rax

Slökkviliðið á Akranesi er nú á leiðinni með allt tiltækt lið og þrjá til fjóra slökkvibíla til að aðstoða við að hefta framför sinubrunans á Mýrum. Fyrir eru bílar og liðsmenn frá slökkviliðinu í Borgarnesi og á Hvanneyri með nokkra auka tankbíla, sem þeir hafa fengið lánaða hjá fyrirtækjum í Borgarnesi, auk bænda með haugsugudælur. „Nú eru menn að einbeita sér að því að hefta för eldsins við veginn við Ánastaði. Ef það tekst ekki verður að endurmeta stöðuna, næsti áfangi eftir það er Langáin," sagði Laufey Gísladóttir hjá lögreglunni í Borgarnesi.

Brynjúlfur Guðbrandsson bóndi á Brúarlandi sagðist vera að dæla vatni upp úr læk hjá Saurum og gengur slökkvistarfið að sögn vel þar. „Það eru að koma fleiri bændur með dráttarvélar til að aðstoða við slökkvistarfið,” sagði Brynjúlfur sem reiknar með að um sex bændur með haugsugudælur samtals verði komnir í baráttuna við sinubrunann innan tíðar.

Hann frétti að eldurinn hefði verið stöðvaður við Hólmakotsafleggjarann fyrir neðan Hundastapa en þar sem eldurinn slapp yfir veginn við Hamra er óvíst með framhaldið. Það er hvasst á svæðinu og glæðir það eldinn.

Eldurinn hefur komist yfir Sauraveg og nú einbeita menn sér …
Eldurinn hefur komist yfir Sauraveg og nú einbeita menn sér að því að stöðva framför eldsins við Ánastaði. mbl.is
mbl.is