„Aldrei séð jafnmikinn sinubruna á svæðinu"

Mikil eldur logaði í sinunni á Mýrum í gær.
Mikil eldur logaði í sinunni á Mýrum í gær. mbl.is/RAX
Eftir Andra Karl andrik@mbl.is
SINUELDAFARALDUR hefur gengið yfir landið í kjölfar mikilla elda sem kviknuðu á Mýrum í Borgarfirði á fimmtudagsmorgun og hafa geisað síðan. Bóndinn á Hundastapa segist aldrei hafa séð jafnmikinn sinubruna á svæðinu en heyrt að svipaður eldur hafi geisað á sama árstíma árið 1959. Mannvirki hafa þó alveg sloppið enda hefur slökkvistarf að miklu leyti snúið að því að verja bæi á svæðinu.

Slökkvilið Borgarness vaktaði eldinn í fyrrinótt, þá var hann í rénum en þegar líða tók á dag breyttist vindáttin og jókst þá bálið á nýjan leik.

Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi ekki geta nefnt nákvæma tölu um það hversu stórt svæði hefur brunnið en það væru hundruð ferkílómetra. Eldurinn var þá orðinn mun minni en á fimmtudagskvöld en erfiðlega gengur þó að hafa stjórn á honum.

Liðsauki frá Akranesi, Búðardal og höfuðborgarsvæðinu

"Við höfum enga stjórn á þessu, við reynum að beina eldinum og afmarka við vegi. Það hefur gefið mjög góða raun að bleyta vegina vel með sandfor og kúamykju og reyna svo að loka einnig af annars staðar og láta þetta brenna."

Liðsauki barst m.a. frá Akranesi, Búðardal og höfuðborgarsvæðinu um miðjan dag í gær en jafnframt var notuð þyrla sem varpaði vatni á eldinn.

Voru á milli 50 og 70 manns að vinna að slökkvistarfi í gærdag og nánast allar haugsugur Borgarfjarðar í notkun. Einstaka bæir voru í gjörgæslu og voru því fengnir tankbílar frá fyrirtækjum í Borgarnesi þar sem mikið vatn þurfti til að verja ræktað land og mannvirki. "Við gátum komið í veg fyrir að eldurinn bærist að Hólmakoti en einnig er brunnið mikið að bænum Ánastöðum og er verið að einbeita sér að því að búa til skára með haugsugum sem eldurinn á ekki að komast yfir," segir Bjarni sem bjóst við að eldurinn myndi geisa áfram um helgina og sagðist í raun engan endi sjá á slökkvistarfi.

Bæirnir Brúarland, Arnarstapi og Hrafnkelsstaðir voru einnig í hættu og því vaktaðir. Bændur unnu hörðum höndum að því að dæla vatni upp úr lækjum til að vernda bæi sína. Einn þeirra er Ólafur Egilsson, bóndi á Hundastapa, sem sagðist aldrei hafa séð jafn mikinn sinubruna á svæðinu en Ólafur hóf búskap á Hundastapa árið 1974.

Logaði víðs vegar í Reykjavík

Mikill erill var hjá slökkviliði víðs vegar á landinu í gær vegna sinubruna og í gærmorgun kviknaði í sinu í Óslandi á Hornafirði. Var þá mikill eldur á svæðinu beggja vegna við svonefndan Gónhól þar sem minnismerki sjómanna stendur en Óslandið er friðland og er þar mikið fuglalíf. Slökkvistarf gekk hins vegar vel þar, vindátt var hagstæð og náðu slökkviliðsmenn að hefta útbreiðslu eldsins á skömmum tíma. Ekki er vitað um upptök eldsins en líkur voru taldar á að kviknað hefði í út frá logandi sígarettu.

Á höfuðborgarsvæðinu voru fjölmörg útköll vegna sinuelda og voru þrír vinnuhópar frá Reykjavíkurborg kallaðir út til aðstoðar við slökkvistarf. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðsmönnum voru brunarnir misstórir en víðs vegar logaði í Reykjavík, Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi. Mestir voru eldarnir í Foldahverfi og Fossvogi þar sem hætta var jafnvel talin á að eldurinn bærist í byggingar og trjágróður.

Eldurinn greinilegur á gervihnattamynd

Á VEFSÍÐU Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, mátti í gær finna mynd sem gervitunglið Terra tók af sinubrunanum í Hraunhreppi á Mýrum klukkan 12:55 á fimmtudag. Myndir gervitunglsins eru m.a. notaðar til að staðsetja og fylgjast með skógareldum á jörðu niðri og tekst þeim afar vel því nokkrir rauðir ferhyrningar eru merktir ofan á myndina og merkja þeir elda. Reykjarstrókurinn frá Mýrum sést einnig greinilega þar sem hann blæs til suðvesturs.

NASA rekur auk þess gervitunglið Aqua en brautir þess liggja yfir Ísland á hverjum degi.

Minna verður um smárunna en meira um grös

"Í STUTTU máli brennur sinan og þau efni sem breytast í lofttegundir fara upp í loftið, s.s. köfnunarefni og kolefni. Steinefnin verða hins vegar eftir, yfirborðið verður svart og hitnar þar af leiðandi meira í sólskini um vorið," segir Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur, um sinubrunann á Mýrum. Hann telur óhjákvæmilegt að bruninn muni hafa áhrif á gróðurfar og jafnvægi raskast. Sigurður segir gróðurinn á Mýrum aðallega vera klófífu í lægðum en uppi á þúfunum er síðan fjalladrapi og bláberjalyng.

"Sumar tegundir njóta góðs af þessu eins og grös en grastegundir geta nýtt sér áburð mjög vel og munu færast í aukana en aftur á móti mun smárunnum fara fækkandi."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert