Sinueldurinn hefur blossað upp á ný

Sinueldurinn hefur blossað upp á nýjan leik og sækir nú …
Sinueldurinn hefur blossað upp á nýjan leik og sækir nú í sig veðrið. mbl.is/Þorkell

Sinueldurinn á Mýrum hefur nýverið blossað upp á nýjan leik. Allt tiltækt lið slökkviliða svæðisins hefur verið kallað út. Að sögn stöðvarstjóra slökkvistöðvarinnar í Reykjavík er verið að ræsa út mannskap og innan tíðar fara um tíu manns á tveimur til þremur dælubílum til aðstoðar.

Ólafur Egilsson bóndi á Hundastapa var á leið til Borgarness til að fá gert við sprungið dekk af haugsugu þegar Fréttavefur Morgunblaðsins náði tali af honum. „Það er allt blossað upp og það mikið. Þetta er á þeim slóðum þar sem við stoppuðum í morgun," sagði Ólafur.

„Það eru bara við bændurnir að berjast við þennan nýja eld sem stendur og við erum að verða uppiskroppa með olíu á dráttarvélarnar," sagði Ólafur. Hann segir að skammt sé síðan þeir urðu varir eldsins á nýjan leik fyrir neðan Fíflholt og við veginn við Ánastaði.

Eldurinn hefur nú hlaupið í nýtt hólf sunnan við Sauraveg þar sem nægur eldmatur er og trúlega er það nálægt því að vera jafnstórt svæði og núþegar er brunnið. Veður er hvasst og kjöraðstæður fyrir sinueldinn.

Sigurður Pálmason hjá Þyrluþjónustunni sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins fyrir skömmu að þeir væru staddir uppi á Langjökli í verkefni og færu trúlegast í slökkvistarfið á nýjan leik eins fljótt og auðið væri eða eftir tæpa tvo tíma.

Haugsugur hafa verið notaðar í baráttunni við sinueldana.
Haugsugur hafa verið notaðar í baráttunni við sinueldana. mbl.is
Eldurinn hefur komist yfir Sauraveg og er nú við veginn …
Eldurinn hefur komist yfir Sauraveg og er nú við veginn við Ánastaði. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert