Landbúnaðarráðherra skoðar brunasvæðið á Mýrum

Sina brann á um 80 ferkílómetra svæði á Mýrum í …
Sina brann á um 80 ferkílómetra svæði á Mýrum í síðustu viku. mbl.is/RAX

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, mun síðar í dag skoða svæðið á Mýrum þar sem sinubruninn varð í síðustu viku. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, upplýsti þetta á Alþingi í dag.

Halldór sagði að um væri að ræða atburð sem menn hafi almennt ekki gert ráð fyrir að jafn stórfelldur sinubruni yrði og raun bar vitni og eðlilegt og nauðsynlegt væri að fara yfir málið í ljósi þeirrar reynslu.

Hann var að svara fyrirspurn frá Jóni Bjarnasyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Jón sagði að sinubrunarnir á undanförnum dögum sýndu að menn væru ekki viðbúnir svona hamförum.

Í tilkynningu frá Borgarbyggð frá í dag segir að sinueldarnir á Mýrum séu með mestu hamförum sinnar tegundar á landinu í áratugi. Með öflugri framgöngu og góðu samstarfi slökkviliða, lögreglu, ýmissa aðila sem buðu fram aðstoð sína og ekki síst íbúa í héraðinu hafi tekist að ráða niðurlögum eldsins. Tíminn leiði í ljós hvaða áhrif sinubruninn hafi á lífríki á svæðinu en mikilvægt sé að hefja rannsóknir í þeim efnum sem fyrst. Hins vegar sé mikið lán að enginn hlaut skaða í átökunum við eldana tekist hafi að halda eignatjóni í lágmarki. Landsmenn séu dýrkeyptri reynslu ríkari og skyni væntanlega betur en áður mögulegar afleiðingar þess að sinueldur verði laus við hliðstæðar aðstæður og þarna sköpuðust.

mbl.is