Náttúrufræðistofnun falin úttekt á brunasvæðunum

Frá sinubrunanum á Mýrum.
Frá sinubrunanum á Mýrum. Morgunblaðið/ RAX

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hefur falið Náttúrufræðistofnun Íslands að gera úttekt á þeim gróður- og dýralífsskaða sem sinubruninn mikli á Mýrum hefur valdið. Hún telur þó ekki nauðsyn á að banna sinubrennur alfarið og bendir á að lög frá 1992 um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

séu mjög ströng hvað þetta varðar. Náttúrufarslegt tjón á Mýrum verði hins vegar að rannsaka gaumgæfilega.

"Umhverfisráðuneytið hefur verið í sambandi við Náttúrufræðistofnun um það hvernig þessari vinnu verði háttað þegar unnt verður að komast að brunasvæðunum. Nú þegar hafa sérfræðingar NÍ farið á svæðið og í framhaldinu verður ákveðið nánar hvernig fylgst verði með því. Mér finnst líklegt að menn muni vilja verja næstu árum í að fylgjast með þróuninni því það er algerlega víst að lífríkið hefur breyst eftir atburð sem þennan.

Það er bráðnauðsynlegt að taka svæðið út því um er að ræða geysilega mikið tjón á villtum gróðri, fyrir utan annað tjón, s.s. eignatjón á girðingum og fleira. En út frá umhverfissjónarmiðum er um að ræða gríðarlega mikinn skaða."

Varðandi algert bann við sinubrennum tekur Sigríður Anna fram að gildandi lög frá 1992 séu mjög ströng og ekki sé nauðsyn á að herða þau frekar. "Það er óheimilt að brenna sinu nema á jörðum sem eru í ábúð eða nýttar af ábúendum nema með leyfi sýslumanns. Þá eru ákvæði þess efnis að aldrei megi brenna sinu ef það hefur í för með sér almannahættu eða gæti valdið tjóni, t.d. á náttúruminjum, fuglalífi, trjágróðri o.fl.

En mér finnst mjög eðlilegt að menn velti þessu fyrir sér í kjölfar viðburða af þessu tagi. Einnig finnst mér eðlilegt að við förum yfir málið með brunamálastjóra og kannað verði álit slökkviliðanna í landinu á þessari lagasetningu. En ég tel að fyrst og fremst þurfi almenningur að vera meðvitaður um þá hættu sem stafar af meðferð elds úti í náttúrunni. Við þær aðstæður sem hafa verið undanfarið má ekkert út af bera."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert