Landið er víða illa farið

Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is
Víða hafa orðið miklar skemmdir á gróðurlendinu af völdum sinueldanna miklu á Mýrum en ástandið er þó mjög mismunandi eftir svæðum. Sérfræðingar á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru um svæðið í gær og skoðuðu gróðurskemmdir og kortlögðu útlínur svæðisins.

"Landið er yfirleitt illa farið en það er þó mjög misjafnt. Það sem er verst farið er fífuflói. Hann er mjög þýfður og þar er fjalldrapi. Sinan á því svæði er mikil m.a. vegna þess að þar hefur verið lítil beit," segir Guðmundur Guðjónsson, landfræðingur og verkefnisstjóri gróðurkortagerðar á Náttúrufræðistofnun, eftir vettvangsferðina í gær. ,,Fjalldrapinn virðist hafa farið illa og kemur hann áreiðanlega ekki til með að spjara sig fyrr en eftir einhver ár. Hann virðist vera það mikið sviðinn að það sem upp úr stendur er að mestu leyti dautt," bætir hann við.

Lyngtegundir fóru illa í brunanum

Landsvæðið á Mýrum sem brann er eitt mesta samfellda votlendi í byggð á Íslandi. Stærstur hluti þess er blautur flói og mýrlendi en gróskumikill votlendisgróður einkennir þetta svæði. Svæðið er víðast hvar mjög þýft og mikill eldsmatur á hverja flatareiningu.

Guðmundur segir að lyngtegundir á borð við bláberjalyng, krækilyng og beitilyng virðist líka hafa farið illa í brunanum. "Aftur á móti virðast starirnar og glófífan hafa sloppið betur. Ástæðan er sú að vatnsstaðan virðist hafa verið há þarna og í votustu flóunum hafa bara efstu stráin brunnið," segir hann.

Guðmundur segir það hafa komið nokkuð á óvart að eldurinn virtist yfirleitt ekki hafa farið upp í grjótholtin sem þarna eru inn á milli í mýrlendinu, hálfgróin með smárunnum og gamburmosa.

Lítið birki er á þessu svæði þó birkikjarr finnist nyrst á svæðinu og að sögn Guðmundar virðist sem lítið hafi verið um að birki hafi orðið eldinum að bráð.

Úrkoma var á vestanverðu landinu í gær og því tæpast ástæða til að óttast að glæður leynist í gróðrinum. Fór að snjóa upp úr hádegi en svo einkennilega vildi til, að sögn Guðmundar, að snjókoman náði ekki yfir nema hluta brunasvæðisins. Snjóföl var yfir öllu austanverðu svæðinu svo ekki sá í jörð en hins vegar féll ekki snjókorn á vestari hluta brunasvæðisins, sem var þó blautt vegna rigninga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »