Ný ákæra fyrir fjársvik, bókhaldsbrot og fjárdrátt

Lögmenn forsvarsmanna Baugs hf. í réttarsal í Héraðsdómi Reykjavíkur þar …
Lögmenn forsvarsmanna Baugs hf. í réttarsal í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hlut Baugsmálsins var tekinn fyrir nýlega. mbl.is/ÞÖK

Ný ákæra í Baugsmálinu er í fimm köflum og þar eru Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, og Tryggvi Jónsson, fyrrum aðstoðarforstjóri félagsins, ákærðir fyrir fyrir fjársvik, brot gegn hlutafélagalögum, meiri háttar bókhaldsbrot og fjárdrátt. Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri Nordica Inc. er síðan ákærður fyrir aðild að bókhaldsbroti með því að gefa út tilhæfulausan kreditreikning.

Þetta kemur fram í tilkynningu, sem Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í málinu, hefur sent frá sér.

Sá hluti tilkynningarinnar, sem fjallar um ákærurnar, er eftirfarandi.

    Ákæran er í fimm köflum:

    I.
    Í fyrsta lagi er forstjóri Baugs hf. ákærður fyrir fjársvik en til vara umboðssvik er hann hlutaðist til um að Baugur hf. keypti Vöruveltuna hf. sem rak verslanir undir nafninu 10-11, í maí 1999 án þess að stjórn Baugs hf. væri kunnugt um að hann hafði keypt fyrirtækið sjálfur fyrir umtalsvert lægri upphæð rúmum sjö mánuðum fyrr og væri enn meðal eigenda þess ásamt einkahlutafélagi sem hann hafði umráð yfir. Á því er byggt af hálfu ákæruvaldsins að með þessum blekkingum hafi ákærði og félög honum tengd auðgast á kostnað almenningshlutafélagsins Baugs.

    II.
    Þá eru forstjóri og fyrrum aðstoðarforstjóri Baugs hf. ákærðir í átta liðum fyrir brot gegn hlutafélagalögum vegna ólögmætra lánveitinga, einkum til félaga í eigu eða umráðum forstjórans á árunum 1999-2001 samtals að fjárhæð rúmlega 400 milljónir króna.

    III.
    Forstjóri Baugs hf. er ákærður í sjö liðum fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa rangfært bókhalds Baugs hf. á árunum 2000 og 2001 með tilhæfulausum tekjufærslum, sem höfðu áhrif á afkomutölur félagsins eins og þær birtust í ársreikningum og árshlutareikningum og með því að láta senda tilkynningar um afkomu félagsins, sem m.a. byggðust á þessum röngu færslum, til Verðbréfaþings Íslands. Þetta var m.a. gert í þeim tilgangi að skapa rangar hugmyndir um hag hlutafélags og hafa áhrif á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

    Fyrrum aðstoðarforstjóri Baugs hf. er ákærður í sex liðum fyrir meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa rangfært bókhald félagsins.

    Framkvæmastjóri Nordica Inc. er ákærður fyrir þátt hans í einu þessara tilvika sem fólst í útgáfu tilhæfulauss kreditreiknings sem færður var Baugi hf. til tekna í bókhaldi félagsins.

    IV.
    Forstjórinn og aðstoðarforstjórinn eru ákærðir fyrir meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta líta svo út í bókhaldi Baugs hf. að seld hefðu verið út úr félaginu hlutabréf félagsins sem í raun voru flutt á fjárvörslureikning í eigu Baugs hf. í Luxembourg en reikningurinn var nýttur meðal annars til að efna kaupréttarsamninga við æðstu stjórnendur Baugs hf.

    V.
    Forstjórinn og aðstoðarforstjórinn eru ákærðir fyrir fjárdrátt með því að hafa dregið fé úr sjóðum Baugs hf. til hagsbóta fyrir fjölskyldufyrirtæki forstjórans til fjármögnunar á eignarhlut og rekstri skemmtibáts í Bandaríkjunum.

    Aðstoðarforstjóranum er jafnframt gefið að sök fjárdráttur með því að draga sér fé úr sjóðum Baugs hf. til greiðslu á persónulegum útgjöldum hans sjálfs.

    Á þeim tíma sem framangreind brot sem ákærðu eru gefin að sök voru framin var Baugur hf. almenningshlutafélag með dreifða eignaraðild.

Í tilkynningunni kemur fram að málið verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. apríl. Tekið er fram að nánari upplýsingar um ákæru eða ákæruefni verði ekki gefnar af hálfu ákæruvaldsins en tilkynningin sé gefin út til upplýsingar um sakargiftir samkvæmt ákæru vegna mikillar fjölmiðlaumfjöllunar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert