Telur ekki ríkja réttaróvissu

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í Baugsmálinu hefði skapað ákveðna réttaróvissu sem Alþingi yrði að taka á. Óvissan væri um það hvað væri lán í skilningi ársreikningslaga.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagðist ekki líta svo á að um réttaróvissu væri að ræða. Málinu hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar og endanlegur úrskurður lægi því ekki fyrir af hálfu dómsvaldsins. „Þar af leiðandi get ég ekki litið svo á að það ríki einhver réttaróvissa, enn sem komið er, eins og háttvirtur þingmaður vísar til."

Jóhanna tók þetta mál upp í fyrirspurnartíma og lagði nokkrar fyrirspurnir fyrir ráðherra. Hún spurði meðal annars að því hvort hann teldi ástæðu til að samræma lög um hlutafélög, skattalög og lög um ársreikninga, í ljósi niðurstöðu héraðsdóms í Baugsmálinu, og hvort skrá ætti öll lán fyrirtækja í ársreikninga eins og sérfræðingar hefðu haldið fram opinberlega.

Ennfremur spurði hún hvort ráðherra teldi að mistök hefðu orðið við innleiðingu félagatilskipunar Evrópusambandsins um framsetningu ársreikninga. Þá spurði hún hvort ráðherra teldi að breyta þyrfti ársreikningalögum til að skýrt lægi fyrir hvað væri lán í skilningi laganna.

Leggur fram nýja fyrirspurn

Árni M. Mathiesen svaraði því til að Baugsmálið svokallaða væri eitt umdeildasta mál sem komið hefði fyrir dómstóla landsins á síðari tímum. Þar hefði fallið dómur og honum hefði verið áfrýjað. Endanlegur úrskurður lægi því ekki fyrir og því gæti hann ekki litið svo á að réttaróvissa ríkti, eins og áður sagði. Hann sagði ennfremur að íslensk stjórnskipan byggðist á þrískiptingu valdsins, og að hann teldi afar óvarlegt af sér og fjármálaráðuneytinu að gefa út skoðanir á úrskurði héraðsdóms. Hægt yrði að túlka það sem íhlutun varðandi dómsvaldið. Baugsmálið væri á engan hátt pólitískt og því væri rangt af sér að fara að blanda sér inn í það á þann hátt sem Jóhanna færi fram á. Auk þess kvaðst hann hissa á því að hún skyldi reyna að draga málið inn í þingsali á þennan hátt.

Jóhanna kom aftur í pontu og lýsti furðu sinni á svari ráðherra. Hann væri að reyna að koma sér hjá því að svara eðlilegum spurningum; þær hefðu ekkert með það að gera hvort mál væri fyrir dómstólum eða ekki. Hún væri að spyrja um lögfræðileg atriði, m.a. hvort samræma þyrfti lög um hlutafélög, skattalög og lög um ársreikninga. „Ég tel það réttaróvissu þegar það liggur fyrir að sérfræðingar hafa tjáð sig um það að það beri að skrá öll lán fyrirtækja í ársreikninga; formleg og óformleg." Hún sagðist myndu leggja nýja en sambærilega fyrirspurn fram á Alþingi, en taka út allar tilvísanir í Baugsmálið. Ráðherra sagði að það myndi ekki breyta neinu um eðli fyrirspurnanna eftir að þær hefðu verið lagðar fram á þennan hátt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert