Krafa líklega gerð um að dómari víki sæti

Ákærðu munu líklega allir krefjast þess að endurákæru í Baugsmálinu verði vísað frá dómi, þegar málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Einn ákærðu mun að líkindum einnig fara fram á að dómari í málinu víki sæti, þar sem hann hefur áður komið að Baugsmálinu.

Mál ríkislögreglustjóra gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Jóni Gerald Sullenberger og Tryggva Jónssyni verður þingfest í héraðsdómi á morgun, en um er að ræða endurákæru í hinu svokallaða Baugsmáli gegn tveimur af þeim sex sem upphaflega voru ákærðir, auk Jóns Geralds sem ekki var ákærður fyrr en nú.

Við þingfestinguna verður ákærðu kynnt ákæran, auk þess sem tímasetning aðalmeðferðar í málinu verður líklega ákveðin. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir að bæði hann og Jakob Möller, verjandi Tryggva, muni krefjast þess að þeim þætti málsins sem snýr að þeirra umbjóðendum verði vísað frá dómi. Þetta staðfesti Jakob í samtali við Morgunblaðið.

Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds, segir að líklegt sé að hann muni einnig krefjast frávísunar á þeim þætti málsins sem snýr að Jóni Gerald, en ekki hafi verið ákveðið endanlega hvort svo verði. Einnig sé líklegt að gerð verði krafa um að Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, víki sæti í málinu, þar sem hann hafi dæmt í öðrum hluta Baugsmálsins, þar sem Jón Gerald hafi verið kallaður fyrir sem vitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert