Arngrímur víkur ekki sæti

Brynjar Níelsson og Jón Gerald Sullenberger í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Brynjar Níelsson og Jón Gerald Sullenberger í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Ómar

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, tilkynnti nú klukkan 15 að hann ætlaði ekki að víkja sæti sem dómari í Baugsmálinu svonefnda, eins og Jón Gerald Sullenberger hefur gert kröfu um. Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds, lýsti því yfir að þessi úrskurður dómarans yrði kærður til Hæstaréttar.

Ný ákæra í málinu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og kröfðust sakborningarnir þrír, þeir Jón Gerald, Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson, þess að ákærunni yrði vísað frá. Eftir að Arngrímur hafði kveðið upp úrskurð um hæfi sitt nú síðdegis, var málinu frestað að öðru leyti. Verður það ekki tekið fyrir aftur fyrr en Hæstiréttur hefur tekið kæru Jóns Geralds fyrir.

Í úrskurði sínum segir Arngrímur, að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem fallin séu til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

Dómari málsins hafi verið einn þriggja dómara sem dæmdi í máli 15. mars sl. Jón Gerald hafi verið vitni í því máli og lagði dómurinn mat á sönnunargildi framburðar hans eins og dómurum beri að gera þá þeir dæma mál. Niðurstaða dómara í einu máli, hvort sem hún byggist á mati á sönnunargildi fram­burðar eða túlkun laga, valdi ekki því að hann sé vanhæfur til að dæma annað mál þar sem reynir á mat á framburði sömu vitna og ákærðra manna eða túlkun á ákvæðum sömu laga.

Þá segir Arngrímur, að af sömu ástæðum séu engin efni til að dómarinn víki sæti af sjálfsdáðum vegna ábend­inga setts ríkissaksóknara um að dómarinn hafi í fyrrnefnda málinu tekið afstöðu til túlkunar á hlutafélagalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert