Dómari tók sér frest vegna kröfu um að hann víki

Gestur Jónsson ásamt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Jakob Möller lögmanni …
Gestur Jónsson ásamt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Jakob Möller lögmanni Tryggva Jónssonar í dómssal í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, tók sér frest til klukkan 15 í dag til að taka ákvörðun um hvort hann skuli víkja í Baugsmálinu, eins og verjandi Jóns Geralds Sullenbergers fór fram á þegar ný ákæra í málinu var þingfest í dag. Allir þeir sem ákærðir eru í málinu, Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggvi Jónsson og Jón Gerald, lýstu sakleysi sínu við þingfestinguna og kröfðust þess að ákærunni yrði vísað frá.

Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, krafðist þess að frávísunarkröfunum yrði hafnað. Hann benti hins vegar dómaranum á, að afstaða hans til túlkunar á hlutafjárlögum í fyrri dómi í Baugsmálinu kunni að valda að vanhæfni vanhæfni hans. Bað hann dómara að kanna það einnig og sagðist Arngrímur taka það til greina.

Brynjar Nielsson verjandi Jóns Geralds sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann færi fram á að dómarinn viki í málinu „vegna þess að hann hefði tekið afstöðu til trúverðugleika framburðar Jóns Geralds í öðru máli með þeim hætti að það má draga óhlutdrægni hans í efa." Brynjar vildi ekki tjá sig um ástæðuna fyrir því að hann óskaði jafnframt eftir því að málinu yrði vísað frá. „Það verða að koma fram síðar rökin fyrir frávísunarkröfunni, ég ætla að flytja það mál fyrir dóminn áður en ég geri það fyrir fjölmiðla," sagði Brynjar.

Brynjar Nielsson sagðist efast um að dómarinn viki sæti. Það þarf mikið til að slíkt gerist enda eru dómarar í litlu landi oft að dæma í málum sem tengjast á einhvern hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert