Jón Gerald kærir úrskurð Arngríms Ísbergs héraðsdómara

Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds Sullenbergers, kærði fyrir hönd umbjóðanda síns í gærmorgun til Hæstaréttar úrskurð Arngríms Ísberg, héraðsdómara, um eigið hæfi til að dæma í Baugsmálinu sem þingfest var sl. fimmtudag.

Við þingfestinguna í Héraðsdómi krafðist verjandi Jóns Geralds þess að Arngrímur viki sæti í málinu, en hann var einn þriggja dómara sem dæmdu í fyrri átta ákæruliðum Baugsmálsins í vor. Arngrímur kvað sjálfur upp úr um að hann væri hæfur til að dæma málið.

"Rökin fyrir því að við teljum Arngrím vanhæfan eru í fyrsta lagi að hann var einn af þremur dómurum í fyrra málinu og í þeirri niðurstöðu var sönnunargildi vitnisburðar míns talið takmarkað þar sem ég bæri þungan hug til Jóns Ásgeirs. Það breytti engu í því mati að framburður minn var í samræmi við öll skjöl og gögn sem lágu fyrir í málinu," sagði Jón Gerald í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Tók hann jafnframt fram að aðstæðurnar í þessu máli væru, að sínu mati, mjög óvenjulegar og sérstakar og ættu að leiða til þess að umræddur héraðsdómari viki sæti. Benti hann á að ekki væri um tvö ótengd mál að ræða. "Brotin sem kært er út af í þessu máli eru byggð á sömu lögreglurannsókn og voru í upphaflegri sömu ákæru," segir Jón Gerald og rifjar upp að þeim ákæruliðum hefði verið vísað frá í dómi Hæstaréttar.

"Í þeirri kæru hafði ég stöðu vitnis en nú er ég með stöðu sakbornings. Það sem vegur þyngst í mínu mati er að Arngrímur Ísberg tók í fyrra málinu almenna afstöðu til trúverðugleika míns sem vitnis með mjög sérstökum hætti. Nú liggur hins vegar fyrir að kærandi, sem er ég, og Jón Ásgeir erum báðir ákærðir í þessum eina lið og niðurstaðan hvað þann lið varðar getur ráðist af mati framburðar míns og Jóns Ásgeirs. Með hliðsjón af mati dómarans á trúverðugleika mínum í fyrra málinu, þá dreg ég óhlutdrægni hans gagnvart mér í efa í þessu máli."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert